Enn slá Norðmenn útflutningsmet

Deila:

Norðmenn fluttu utan 1,3 milljónir tonna af sjávarafurðum á fyrri helmingi þessa árs að verðmæti 51,2 milljarðar norskra króna. Það svarar til 755 milljarða íslenskra króna. Þetta er samdráttur í magni um 13%, en verðmætið hefur hækkað um 7% miðað við sama tíma í fyrra. Norðmenn hafa aldrei áður fengið jafnmikið fyrir fiskinn sinn á fyrri hluta ársins og nú.

Hér má sjá þróun útflutnings sjávarafurða frá Noregi á fyrri helmingi árs síðustu ár. Miðað er við verðmæti í milljörðum norskra króna talið skipt á fiskeldi og veiðar

Laxinn skilar Norðmönnum um það bil tveimur þriðju hlutum heildarverðmætisins, en einnig hefur orðið aukning í útflutningi á skelfiski. Samdráttur í magni skýrist að mestu leyti af minni útflutningi á kolmunna og loðnubresti í ár.

Eftirspurn eftir norskum sjávarafurðum hefur verið jöfn og góð og aukning hefur verið á einstökum mörkuðum. Þá hefur veikt gengi norsku krónunnar gagnvart evru og dollar skilað fleiri krónum í kassann en ella. Verðið hefur hækkað í norskum krónum talið.

Í júní fluttu Norðmenn utan 163.000 tonn af sjávarafurðum að verðmæti 117 milljarðar íslenskra króna. Það er samdráttur í magni um 19%, en verðmætið er á svipuðu róli og í sama mánuði í fyrra.

 

Deila: