Fiskeldið skilar sífellt meiru

Deila:

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 2.300 milljónum króna í maí samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í síðustu viku. Hefur útflutningsverðmæti eldisafurða aðeins einu sinni verið hærra í krónum talið sem var í janúar síðastliðnum. Í maí í fyrra nam útflutningsverðmæti eldisafurða tæplega 1.500 milljónum króna, og er því um að ræða 57% aukningu í krónum talið á milli ára. Gengi krónunnar var tæplega 12% veikara í maí síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra og er aukningin í erlendri mynt því minni fyrir vikið, eða sem nemur um 39%. Frá þessu er greint á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Skrifast alfarið á lax
Útflutningsverðmæti eldislax nam 1.844 milljónum króna í maí og hefur aldrei verið hærra. Í maí í fyrra var það 991 milljón og er þetta því aukning upp á 86% í krónum talið, en um 65% sé tekið tillit til gengisáhrifa. Var því lítilsháttar samdráttur á útflutningsverðmæti annarra eldisafurða, eða sem nemur tæplega 3% í krónum talið á milli ára, sem einkum má rekja til útflutningsverðmæti silungs. Útflutningsverðmæti silungs nam 333 milljónum króna, sem er tæplega 10% samdráttur í krónum talið miðað við maí í fyrra.

Um 10% af verðmæti sjávarafurða

Á fyrstu fimm mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið upp í rúma 10,9 milljarða króna. Það er  68% aukning í krónum talið á milli ára, en á sama tímabili í fyrra var verðmæti eldisafurða 6,5 milljarðar króna.  Útflutningsverðmæti eldisins er rétt tæplega 10% af útflutningsverðmæti sjávarafurða á tímabilinu og hefur hlutfallið aldrei mælst hærra á tímabilinu, eins og myndin hér fyrir neðan ber með sér.

 

Deila: