Moka upp makríl úr „bæjarlæknum“

Deila:

Við höfum landað um 3.000 tonnum af makríl til vinnslu í uppsjávarhúsi Vinnslustöðvarinnar frá því í byrjun júlí. Fiskurinn er stór, feitur og pattaralegur, einhvern veginn lengra genginn og þroskaðri en við höfum séð áður um svipað leyti sumars. Miðin eru rétt við Eyjar, við tökum þetta einfaldlega beint upp úr stóra bæjarlæknum okkar,“ segir Páll Guðmundsson í samtali á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Það er giska létt yfir Páli Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Hugins ehf., útgerðarfélags Hugins VE, enda fer makrílvertíðin afar vel af stað. Slíkt gleður auðvitað alla sem að koma og hagsmuna eiga að gæta eftir öll vonbrigðin og samdráttinn sem loðnubresturinn skapaði í vetur.

Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, segir að fyrirtækið hafi tekið á móti um 6.000 tonnum af makríl til vinnslu á vertíðinni af þremur skipum: Huginn VE, Kap VE og Ísleifi VE.

„Við erum mjög ánægð með makrílvertíðina. Fiskurinn er fínn, meðalvigtin um 500 grömm, sem er í stærra lagi miðað við árstíma. Makríllinn er líka óvenjulega feitur sem skýrist af miklu lífi og æti í hafinu.

Mikill kostur er hve stutt er að fara til veiða. Skipin fara rétt suður fyrir Eyjar og hægt að kalla þau inn til löndunar með skömmum fyrirvara ef þörf krefur. Markaðsmálin líta líka vel út.“

Stefnt er að því að vinna makríl í Vinnslustöðinni fram á fimmtudag í næstu viku og hafa fyrri hluta föstudags upp á að hlaupa ef hreinsa þarf upp aflarestar.

Þangað og ekki lengra því þá blasir ekkert annað við Eyjamönnum en Herjólfsdalur og þjóðhátíð. Sú veisla stendur til mánudagskvöld að vanda en þá tekur alvara lífsins við að nýju.

Sjómennirnir taka til við að rjúfa þjóðhátíðarfrið makrílsins á miðunum strax á þriðjudag, 6. ágúst.

 

Deila: