Íslandi haldið frá samningaborðinu

Deila:

Íslandi er haldið frá samningaborðinu varðandi nýtingu makríl-stofnsins og hafa ítrekaðar sáttaumleitanir og samningsvilji Íslendinga ekki borið árangur. Þetta segir upplýsingafulltrúi atvinnuvegaráðuneytisins í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu RUV vegna ummæla formanns fiskveiðinefndar Evrópuþingsins. Þar sagði hann makríldeiluna við Ísland ógna framtíð skoskra sjómanna og að íslensk stjórnvöld væru gráðug og óábyrg.

Í umfjöllun Shetland Times í vikunni kom fram að íslensk stjórnvöld sættu gagnrýni fyrir að hafa án samráðs tilkynnt að kvóti Íslands yrði aukin úr tæpum 108 þúsund tonnum í rúm 140 þúsund tonn.

Þetta bæri vott um áhugaleysi á sjálfbærum veiðum úr makrílstofninum þar sem sérfræðingar Alþjóðahafrannsóknarráðsins hefðu talið rétt að minnka veiðar úr makrílstofninum um 20 prósent.

Haft var eftir Chris Davies, formanni fiskveiðinefndar Evrópuþingsins, eftir fund með sjómönnum á Hjaltlandseyjum að Íslendingar væru gráðugir og óábyrgir. „Þeir hegða sér ekki eins og vinaleg þjóð, hvað þá eins og þjóð sem á aðild að evrópska efnahagssvæðinu.“

Í svari við fyrirspurn fréttastofu segir atvinnuráðuneytið að íslensk stjórnvöld og Evrópusambandið hafi átt í samskiptum í sumar um makrílveiðar, síðast í ágúst. „Íslandi hefur verið haldið frá samningaborðinu. Ítrekaðar sáttaumleitanir og samningsvilji Íslendinga hefur ekki borið árangur.“

Þá segir í svarinu að makrílkvóti Íslands sé bæði réttmætur og ábyrgur.  „Veiði umfram vísindaráðgjöf er alvarlegt mál, en ekki er rétt að leggja þá ábyrgð eingöngu á herðar Íslands. Það er ósanngjörn krafa á eitt ríki að það dragi úr veiðum einhliða.”

 

Deila: