Fundað um fyrirkomulag loðnuleitar

Deila:

Fyrirkomulag loðnuleitar í haust og vetur var til umræðu á fundi sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boðaði til í morgun með fulltrúum Hafrannsóknastofnunar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Á fundinum fóru fulltrúar Hafrannsóknastofnunar yfir fyrirhugaða leit. Félagsmenn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa undanfarin ár lagt til skip til þeirrar vinnu sem gott samstarf hefur ríkt um.

Á fundinum lagði Kristján Þór áherslu á mikilvægi þess að samstaða væri um fyrirkomulag leitarinnar og að allir aðilar þyrftu að róa í sömu átt. Vísaði hann til þess að aldrei hefur verið lagður meiri kraftur í leit að loðnu en á síðasta veiðitímabili. Einhugur væri um að fylgja eftir þeirri áherslu á komandi misserum.

 

Deila: