Hærra hitastig dregur úr nýliðun síldar

Deila:

Hærra hitastig sjávar leiðir til minnkandi síldarstofna. Samkvæmt norskum rannsóknum leiðir hærri sjávarhiti til minna fæðuframboðs fyrir síldarlirfur, en fyrir vikið vaxa þá hægar en við lægra hitastig. Að auki eykur minnkandi fæðuframboð  líkurnar á því að lirfurnar verði öðrum tegundum að bráð. Það leiðir svo til minnkandi stofns norsk-íslenskrar síldar.

Þetta kemur fram í nýrri grein eftir norska fiskifræðinginn Reidar Toresen, sem birt var í tímaritinu Fish & Fisheries. Þar fjallar Toresen um samhengi breytinga á sjávarhita og stofnstærðar síldarinnar. Rússneskir vísindamenn hafa mælt sjávarhita í Barentshafi með reglubundnum hætti í meira en 100 ár.

Síld og sjávarhiti. Hér má sjá þróun hrygningarstofns norsk-íslensku síldarinnar (rauða línan) og meðalhitastig í Barentshafi. (bláa línan.)

„Þegar sveiflur í hitastigi eru bornar saman við breytingar á hrygningarstofni má sjá greinilegt samhengi frá árinu 2.000. Þegar hitastigið hækkaði jókst nýlíðun. Með sama hætti var samhengi milli fallandi hitastigs og stærðar hrygningarstofnsins. Undantekningin frá reglunni eru árin eftir hrun síldarstofnsins á sjöunda áratugnum,“ skrifar Toresen.

Hann bendir á að eftir hrun síldarstofnsins hafi þróunin breyst og ekki hafi verið sömu tengsl milli hitastigs og stærðar hrygningarstofnsins. Hitastig sjávar hafi hækkað jafn og þétt síðustu ár en eftir 2000 hafi ekki komið fram sterkir árgangar. Undantekningin sé reyndar árið 2004 en sá árgangur var mjög stór.  Síðan þá hefur nýliðunin verið slök, rétt eins og slökkt hafi verið á henni.

 

 

 

Deila: