Öryggishandbók fiskiðnaðarins uppfærð

Deila:

Öryggisstjórar sjávarútvegsfyrirtækja funduðu í síðustu viku í Neskaupstað. Megintilgangur fundarins var að uppfæra öryggishandbók fiskiðnaðarins en auk þess var fjallað um ýmis mál sem tengjast öryggi starfsfólks sjávarútvegsfyrirtækja. Árið 2017 komu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) á fót öryggisráði og var fundurinn í Neskaupstað liður í starfsemi þess. Hrefna Karlsdóttir hjá SFS er verkefnastjóri öryggisráðsins.

Til fundarins í Neskaupstað komu öryggisstjórar og öryggisfulltrúar frá sjö stórum sjávarútvegsfyrirtækjum og til að fræðast frekar um fundinn var rætt við Björn Halldórsson öryggisstjóra Þorbjarnar í Grindavík á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Björn var fyrst spurður hvort fundurinn hefði ekki heppnast vel. „Jú, hann heppnaðist frábærlega og það var tekið afskaplega vel á móti okkur í Neskaupstað. Auk þess að funda um öryggishandbókina skoðuðum við fiskiðjuver Síldarvinnslunnar og uppsjávarskipið Beiti undir leiðsögn Guðjóns B. Magnússonar öryggisstjóra Síldarvinnslunnar. Þá skoðuðum við hafnarmannvirkin í Neskaupstað og fræddumst um söguna. Loks var haldið í Safnahúsið og söfnin skoðuð auk þess sem Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar fræddi okkur um sögu fyrirtækisins. Þetta var allt afar fróðlegt og gagnlegt fyrir okkur gestina,“ segir Björn.

Björn upplýsir að sífellt meiri áhersla sé lögð á öryggismál hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og öryggisstjórar eða öryggisfulltrúar séu starfandi hjá mörgum þeirra. „Það eru öryggisstjórar eða öryggisfulltrúar stærri fyrirtækjanna sem leiða þá vinnu sem fer fram á sviði öryggismála en hins vegar geta öll sjávarútvegsfyrirtæki notfært sér hana. Þannig er öryggishandbók fiskiðnaðarins aðgengileg öllum. Þó svo að sjávarútvegsfyrirtækin eigi í samkeppni þá eru forsvarsmenn þeirra sammála um að öryggismálin séu hafin yfir allt slíkt. Meginverkefnið á sviði öryggismálanna er að auka öryggi og fækka slysum. Þannig er skipulega farið yfir öll slys og óhöpp sem eiga sér stað og reynt að læra af þeim og tryggja að þau gerist ekki aftur. Á vettvangi öryggisráðsins reyna menn að læra hver af öðrum. Í öryggisráðinu eru fjórir fundir á ári en auk þess eru öryggisstjórarnir í góðu sambandi þess á milli. Það er ávallt mikilvægt fyrir öryggisstjórana að hittast augliti til auglitis. Slíkir fundir, eins og fundurinn í Neskaupstað, skila miklu meiri árangri en símafundir eða fundir sem byggja á tölvusamskiptum“ segir Björn Halldórsson.

 

Deila: