Byltingarkennd hugmynd verður að veruleika

Deila:

Hampiðjan kynnir nú nýjan höfuðlínukapal, DynIce Optical Data, sem inniheldur ljósleiðara og getur því flutt nær ótakmarkað gagnamagn frá trollinu upp í brú. Slíkur gagnaflutningur gefur möguleika á mun betri stýringu veiðarfærisins. Þessi nýja gagnaflutningsleið mun gera það kleift í framtíðinni að  flokka frá í trollinu þann fisk, sem óæskilegur er, til dæmis smáfisk eða stóran hrygningarfisk og hugsanlega tegundir, sem ekki er sóst eftir. Því má segja að um byltingakennda uppfinningu sé að ræða og hefur Hampiðjan fengið einkaleyfi fyrir framleiðslunni. Kapallinn verður kynntur á sjávarútvegssýningunni 2019 í Laugardalshöll en hún stendur yfir frá miðvikudegi til og með föstudags í þessari viku.

25 ára meðganga

„Fyrir um 25 árum síðan rissaði ég upp hugmynd að höfuðlínukapli með ljósleiðara sem er núna loksins orðinn að raunveruleika eftir öll þessi ár. Á þeim tíma voru ekki til réttu tækin hjá Hampiðjunni til að framleiða slíkan kapal og því síður ljósleiðari sem hægt væri að nota í þannig kapal en þá taldi ég að þetta væri bara spurning um einhver ár en ekki áratugi,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, þegar hann rifjar upp „meðgöngu“ hins nýja gagnaflutningakapals, DynIce Optical Data, sem var nokkuð löng.

„Draumurinn um að búa til gagnaflutningskapal með háum styrk og nánast ótakmarkaðri flutningsgetu hefur því alltaf verið mér afar ofarlega í huga og fyrir nokkrum árum þróaði ég gagnaflutningskapal fyrir troll með koparleiðurum með ofurþráðaefnum sem ber nafnið DynIce Data. Það þróunarferli var langt og krefjandi því fyrir utan að þróa kapalinn sjálfan þurfti að hanna sérstaka vél til framleiðslunnar sem við þróuðum og smíðuðum síðan í Hampidjan Baltic í Litháen fyrir nokkrum árum. Næsta skref eftir að því takmarki var náð var að halda áfram þeirri þróun með ljósleiðara en vandinn var að finna rétta ljósleiðarann því hann þurfti að þola gríðarlegt beygju- og togálag. Ljósleiðari er í einfaldleika sínum örgrannur glerþráður sem er bara brotabrot af þykkt mannshárs og afar stökkur eins og venjulegt gler.

Fundu ljósleiðara fyrir loftskeyti

Það tókst ekki að finna nothæfan ljósleiðara fyrr en ég réð Jón Atla Magnússon sem vöruþróunarstjóra Hampiðjunnar í ársbyrjun 2016 og bað hann um að einbeita sér að þessu verkefni. Hann fann ljósleiðara sem hafði verið notaður af Bandaríkjaher fyrir loftskeyti og hafði því ekki verið aðgengilegur á markaði. En með aukinni tækniþróun fékk Bandaríkjaher annan valkost sem er greinilega betri og því fengum við aðgang að þessum ljósleiðara sem þolir ívið meiri teygju en aðrir ljósleiðarar. Fyrir sjávarútvegssýninguna IceFish 2017 voru frumgerðir af ljósleiðarakaplinum framleiddar og til stóð að kynna kapalinn á þeirri sýningu,“ segir Hjörtur.

Hjörtur og  Jón Atli við rúllu með nýja kaplinum.

Bás Hampiðjunnar á sýningunni var settur upp með kynningu á þessari byltingarkenndu nýung en dagana fyrir sýninguna fóru allar prófanir úrskeiðis og ljósleiðararnir brotnuðu áður en kapallinn komst í tilraunabekkinn. Kvöldið áður en sýningin opnaði þá lét Hjörtur rífa niður allar kynningar af DynIce Optical Data af básnum og setja annað efni í staðinn. Vonbrigðin voru afar mikil enda virtist allt vera á góðri leið með framleiðslu og prófanir vikurnar áður.

100.000 beygjur undir miklu átaki

„En við héldum samt ótrauðir áfram og núna tveim árum seinna með frekari þróunarvinnu erum við Jón Atli sannfærðir um að okkur hafi tekist ætlunarverkið að framleiða gagnaflutningskapal með nær ótakmarkaðri gagnaflutningsgetu. Kapallinn hefur verið prófaður í slitprufum og glerþráðurinn brestur ekki fyrr en rétt áður en kapallinn slitnar og beygjuþolið virðist mikið.  Síðustu beygjuþolsprófun var hætt eftir að við höfðum náð 100 þúsund beygjum undir miklu átaki og enga breytingu var að sjá á kaplinum. Þannig að við erum nokkuð vissir um að hann haldi út álagið í notkun.  Ljósleiðari getur flutt ótrúlegt gagnamagn og sem dæmi má nefna að hægt er að flytja eina bíómynd í einum ljósleiðara á 1/10 á sekúndu.  Í DynIce Optical Data eru þrír ljósleiðarar svo gagnaflutningsmagnið er bókstaflega ótakmarkað.

Við fengum útgefið einkaleyfi á þessum kapli fyrir nokkrum árum og því til viðbótar eru í umsóknarferli (patent pending) nokkur viðbótareinkaleyfi til að verja það sem við höfum þróað og uppgötvað undanfarin tvö ár.

Þó kapallinn sé ekki sver er gagnaflutningsgeta hans nánast takmarkalaus.

Bylting í náinni framtíð

Það eru engar ýkjur að ljósleiðarakapalinn, DynIce Optical Data, hefur alla möguleika til að bylta fiskveiðum í náinni framtíð.  Það mun vissulega taka nokkur ár að þróa allan búnað sem til þess þarf.  Það að geta fengið í rauntíma upplýsingar um hvaða fiskur er að koma inn í trollið gefur möguleika á að flokka aflann og velja hvað eigi að fanga og hvaða fiskum eigi að sleppa mun gjörbreyta fiskveiðum í framtíðinni. Þannig verður hægt að sleppa öllum fiskum undir viðmiðunarmörkum svo þeir geti fengið að vaxa upp í hentuga stærð og einnig að sleppa stærstu fiskunum því þeir hrygna margfalt meira en minni fiskar og eru því best geymdir í sjónum til að viðhalda stofnunum,“ segir Hjörtur Erlendsson.

 

 

Deila: