Tæknistigið, þekkingin og getan gríðarleg

Deila:

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra opnaði sýninguna Sjávarútvegur í Laugardalshöllinni í dag. Hann sagði við það tækifæri að Íslendingar gengju óhræddir til móts við auka samkeppni á mörkuðum fyrir sjávarafurðir og tæknibúnað til veiða og vinnslu. Ólafur M. Jóhannesson, framkvæmdastjóri sýningarinnar, minntist í erindi sínu á hina gömlu sjávarútvegsráðherra Lúðvík Jósepsson og Matthías Bjarnason, sem stóðu vörð um íslenska hagsmuni og vörðu landhelgina fyrir ágangi erlendra þjóða. Án þess hefðum við sennilega séð erlend skip nýta auðlindina nú í stað okkar Íslendinga.

Við opnun sýningarinnar voru veittar viðurkenningar fyrir góðan árangur. Samtök fyrirtækja í sjásvarútvegi veittu Þorbirni hf. Í Grindavík, viðurkenningu fyrir störf að slysavarnarmálum hjá fyrirtækinu, og öryggis- og heilbrigðismálum starfsmanna. Sjávarklasinn veitti viðurkenninguna frumkvöðull ársins til fyrirtækisins Greenvolt Grandagarði fyrir vinnu að nýjum orkutengdum lausnum, sem nýtast munu á heimsvísu. Þá veitti Landssamband smábátaeigenda Jóni Yngvari Hilmarssyni viðurkenningu sem trillukarl ársins. Hann varð aflahæstur á strandveiðum þessa árs með 52,4 tonn.

„Íslenskur sjávarútvegur er hátækni atvinnugrein og ég fékk hugljómun, þó ég sé búinn að vera tengdur sjávarútvegi mjög lengi, þegar ég kom á Evrópsku sjávarútvegssýninguna í Brussel á sínum tíma. Þar sem maður sér þetta alþjóðlega markaðstorg og hvað íslensku fyrirtækin, hvort tveggja útgerðin og tæknifyrirtækin eru að gera með frumkvæði og hugviti, fyllist maður stolti. Á alþjóðlegum mörkuðum er líflínan dregin um afkomu okkar. Við erum háð því að 98% af fiskafla okkar fari á erlenda markaði. Þó það sé ekki nema 2% af afla veraldar, er tæknistigið, þekkingin og getan gríðarleg í þessari atvinnugrein. Þá setur maður hlutina í samhengi þegar maður kemur á svona staði þar sem fólk er að bera sig saman og gera í raun úttekt á sjálfum sér út frá þeim keppinautum sem við er að glíma hverju sinni,“ sagði Kristján Þór.

Kristján sagði að það væri mjög mikilvæg þegar sýning af þessu tagi væri haldin og menn sýndu sína getu og þekkingu, að almenningur kæmi á sýninguna til að sjá í rauninni út á hvað þessi atvinnugrein gangi og fyrir hvað hún standi. „Það er mikils virði og ég vil þakka fyrir það að þeir sem hafa lagt í þá vinnu að koma þessari sýningu upp. Ég þakka þeim fyrir það og óska þeim heilla í sínu góða starfi. Sömuleiðis er það ánægjulegt að fá að sjá hér og hitta erlenda gesti sem vonandi eru komnir hingað til að njósna. Nýta sér þá tækni sem við búum yfir, sem hvetur okkur þá til frekari dáða. Við göngum til móts við aukna samkeppni óhrædd og ég vænti þess og vona að þessa daga, sem hér verður opið, tökum við einhver skref fram á við. Allt með það að markmiði að gera íslenskt þjóðfélag betra en það var í gær og enn betra á morgun,“ sagði ráðherrann.

Á myndinni ræðir Kristján Þór við Hjört Erlendsson forstjóra Hampiðjunnar. Ljósmynd Jóhann Ólafur Halldórsson.

Deila: