Lúxusvertíð

Deila:

Síldveiðin fyrir austan land gengur vel og vinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað er samfelld. Það eru fjórir bátar sem landa til vinnslu í fiskiðjuverinu, en það eru Börkur NK, Beitir NK, Bjarni Ólafsson AK og Margrét EA. Að auki landar síðan Hákon EA frystri síld í Neskaupstað. Lokið var við að landa úr Beiti NK 1250 tonnum á miðvikudagsmorgun morgun og hófst þá strax löndun úr Bjarna Ólafssyni AK sem var með tæplega 600 tonn. Síðan var landað úr Margréti EA sem var með tæplega 1100 tonn.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Tómas Kárason, skipstjóra á Beiti, og spurði hann hvort hér væri ekki um að ræða lúxusvertíð. „Jú, það má svo sannarlega segja að þetta sé lúxusvertíð. Vertíðin hefur bara verið svakalega fín. Tíðin hefur verið góð og við höfum lengst af einungis þurft að fara 40-50 mílur til að sækja síldina. Veiðin hefur mest farið fram á Héraðsflóa, sunnan við Digranesflakið og norðan við Glettinganesflak. Og síldin sem hefur fengist þarna hefur verið hreint út sagt glimrandi; stór, eða um 400 gr. og átulaus. Ég held að vart sé hægt að hugsa sér betra eða ferskara hráefni. Við höfum gjarnan verið að koma með um 1200 tonn í hverri veiðiferð og aflinn hefur fengist í 3-4 holum.

Nú upp á síðkastið hefur orðið vart við síld af öðrum stofni í bland við norsk-íslensku síldina og hafa bátarnir m.a. þess vegna fært sig utar. Núna eru þeir út af Héraðsflóa, utan við landgrunnskantinn þannig að við erum kannski að sigla um 70 mílur á miðin. Athyglisvert er að þessi síld, sem við teljum vera íslenska sumargotssíld, er algjörlega laus við sýkingu, en hún er fjarri því eins feit og norsk-íslenska síldin.  Fyrir okkur er þetta afar róleg síldarvertíð; það er stutt að fara, það veiðist vel og því þurfa skipin oft að bíða í landi á milli veiðiferða því það eru afköst fiskiðjuversins sem stjórna í reyndinni veiðunum. Við lukum við löndun í gærmorgun en við förum örugglega ekki út fyrr en í fyrsta lagi annað kvöld þannig að menn hafa það tiltölulega náðugt,“ segir Tómas.

Deila: