Máli vísað frá og greiðslu málskostnaðar krafist

Deila:

Málaferli gegn sjókvíaeldi halda áfram og áfram falla dómar sem styðja við þá atvinnugrein.  Á föstudaginn dæmdi Landsréttur Náttúruvernd 2 málsóknarfélag til þess að greiða Matvælastofnun og Löxum ehf. málskostnað 2.000.000 kr. hvorum aðila í héraði og fyrir Landsrétti og vísaði málinu frá, samkvæmt frétt á bb.is

Tildrög málsins eru þau að Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár, Veiðifélag Breiðdælinga og Veiðifélag Vesturdalsár stofnuðu sérstakt málsóknarfélag, Náttúruvernd 2 og höfðuðu mál á hendur Matvælastofnun og Löxum ehf. á Reyðarfirði og kröfðust þess að úr gildi yrði fellt rekstrarleyfi fyrirtækisins til sjókvíaeldis á laxi í Reyðarfirði. Héraðsdómur tók málið fyrir en hafnaði kröfunni og öllum röksemdum kærenda. Var málinu áfrýjað til Landsréttar.

Landsréttur vísaði málinu frá héraðsdómi og dæmdi málshefjendur til þess að greiða  málskostnað. Eru þetta nýmæli í dómum um þessi efni, sem eru orðnir nokkrir og er til marks um að málatilbúnaður kærenda er ekki reistur á nægilega málefnalegum grunni.

Landsréttur segir í dómi sínum að veiðifélögin sem standa að málshöfðuninni hafi ekki lögvarða hagsmuni  í málinu þar sem veiðirétturinn  í laxveiðiánum tilheyri ekki þeim heldur einstökum félagsmönnum veiðifélaganna.  Þar með geti veiðifélögin ekki krafist afstöðu dómstóla til þess hvort sjókvíaeldi verði bannað til að vernda hagsmuni veiðiréttarhafa.

Þessi niðurstaða gerir það að verkum að hver og einn veiðiréttarhafi verður að standa að málshöfðun gegn laxeldi í sjó og ekki verður hægt að beita veiðifélögum til þess.

 

Deila: