ESB, Noregur og Færeyjar koma sér saman um makrílkvóta
Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar hafa í sameiningu ákveðið að heildarkvóti á makríl á næsta ári verði 922.000 samkvæmt ráðleggingum Alþjóða hafrannsóknaráðsins. Þar af ætla þessar þjóðir sér 778.300 tonn og skilja eftir 143.700 tonn, sem þær telja hæfilegan skammt fyrir Ísland, Grænland og Rússland samanlagt. Ísland hefur ákveðið að kvóti þess á næsta ári verði 140.000 tonn.
Ekkert samkomulag hefur verið með strandþjóðunum um hlutdeild hvers og eins úr heildinni, en Alþjóða hafrannsóknaráðið lagði til að heildarafli á næsta ári verði 922.000 tonn, sem er mikil aukning frá ráðleggingu þessa árs upp á 770.360 tonn. Aflinn verður hins vegar um 860.000 tonn eða meira. Ósamkomulagið undanfarin ár hefur leitt til afla sem er verulega umfram ráðleggingar, en engu að síður telja vísindamenn að stofninn sé vaxandi og leggja því til aukinn heildarafla.
Samkvæmt samkomulagi ESB, Noregs og Færeyja koma 454.500 tonn í hlut ESB, 207.600 tonn í hlut Norðmanna og Færeyingar fá 116.200 tonn.