Endurnýta nánast allt vatn

Deila:

Ný seiðaeldisstöð Arctic fish á Tálknafirði endurnýtir 96 prósent vatns í eldinu og gerir tilraunir til að fullvinna allar aukaafurðir. Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish, segir mögulegt að endurnýta allt að 99 prósent vatnsins.

„Þetta er í rauninni fyrsta eldisstöð sinnar tegundar hér á landi sem að byggir á vatnsendurnýtingu, fullkominni. Þannig við getum verið með mjög öfluga hitastýringu á mismunandi árgöngum og aðskilið kerfi eftir því hver stærð seiða og aldur þeirra er. Þannig þetta er í rauninni ekki bara einstakt hér á Íslandi heldur væntanlega ein fullkomnasta stöð á heimsvísu,“ segir hann í samtali við ruv.is.

Seiðaeldisstöðin endurnýtir 96 prósent vatnsins, eða um fjögur prósent þess magns sem annars þyrfti í starfsemina. Það þýðir að einungis 80 lítrar eru teknir inn af þeim 3600 lítrum sem fara í gegnum kerfið á sekúndu.

Jafnframt er unnið að fullnýtingu allra afurða með því að skilja næringarrík efni eins nítrat og nítrit úr vatninu með eimun og sigtun sem svo mætti nýta í lífgasframleiðslu, fóður og áburð.

Þá er fylgst náið með gæðum vatnsins í gegnum rannsóknir, segir Magnús Óskar Hálfdánsson, starfsmaður Arctic Fish. Á rannsóknastofu eldisstöðvarinnar eru vatnssýni skoðuð á dagsgrundvelli þar sem litið er eftir efnasamsetningu og gæðum vatnsins.

„Það er mjög mikilvægt að fylgjast með gæðum vatnsins upp á velferð fisksins,“ segir Magnús.

Hann segir jafnframt rannsóknastofu eldisstöðvarinnar einstaka hér á landi.

„Það eru rannsóknastofur annars staðar, en ekki svona fullkomnar á Íslandi. Ég held að þetta sé ein besta rannsóknastöð fyrir fiskeldi á landinu,“ segir hann.

 

Deila: