Fullkomnasta vinnslustöð fyrir bolfisk á heimsvísu

Deila:

Brim hf. hefur undirritað samning við Marel um kaup og uppsetningu á hátækni vinnslubúnaði og hugbúnaði fyrir hvítfiskvinnslu sem munu gera aðstöðu félagsins á Norðurgarði í Reykjavík að fullkomnustu vinnslustöð fyrir bolfisk á heimsvísu.

Áætlað er að nýja vinnslukerfið verði sett upp um mitt ár 2020. Kerfið felur í sér ýmsar nýjungar, þar á meðal öflugt gæðaeftirlitskerfi og nýjustu róbótatækni sem mun sjálfvirknivæða og straumlínulaga vinnsluna til muna.

„Við erum mjög ánægð með að taka þátt í þessu spennandi verkefni,” segir Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri Marel Fish. „Þetta er sögulegur samningur sem mun gera snjallvinnslu í sjávarútvegi að veruleika”.

Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims, Gísli Kristjánsson framleiðslustjóri Brims, Óskar Óskarsson, sölustjóri Marel Fisk og Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri Marel Fisk.

Marel kynnti lausnina fyrir stjórnendum Brims í sýndarveruleika vikuna áður en kaupin voru undirrituð. Í tölvuhermiveröld gátu forsvarsmenn Brims gengið eftir öllum stigum vinnslunnar. Sú innsýn nýtist stjórnendum við skipulagningu. Þjálfun starfsfólks mun einnig fara fram í sýndarveruleika þannig að vinnsla getur hafist strax að uppsetningu lokinni. Frá fyrsta degi mun starfsfólk Brims geta starfrækt búnaðinn.

Marel notar sýndarverkuleika í auknum mæli, bæði við framleiðslu og sölu og jafnframt til þess að hraða þróunarferlinu og draga úr kostnaði við uppsetningar fyrir viðskiptavini.

Meðal þess sem Brim hefur fest kaup á er háþróað pökkunarkerfi með tíu róbótahausum sem mun straumlínulaga allt pökkunarferlið. Jafnframt felur vinnslukerfið í sér þrjár FleXicut vatnsskurðarvélar ásamt tilheyrandi forsnyrtilínum og sjálfvirkri afurða dreifingu, auk þess sem Brim verður fyrst til að innleiða nýtt SensorX beinaleitarkerfi fyrir ferskar afurðir. Hugbúnaður verður í lykil hlutverki í nýja vinnslukerfinu, þar sem hann tengir tækin í hverju vinnsluþrepi hvert við annað og tryggir jafnframt rekjanleika gegnum allt vinnsluferlið.

Hátækni samtenging búnaðarins gerir hann snjallan sem auðveldar Brim að mæta óskum og pöntunum viðskiptavina fljótt og nákvæmlega og um leið fullnýta verðmætt hráefni.

„Við í Brimi erum spennt og hlökkum til að taka þátt í að búa til hátækni bolfiskvinnslu,” segir framkvæmdastjóri Brims, Ægir Páll Friðbertsson. „Starfsfólk Brims býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á vinnslu og meðferð sjávarfangs sem mun nýtast í þetta verkefni. Brim var útnefnt Umhverfisfyrirtæki ársins 2019 enda leggjum við í öllu okkar starfi áherslu á umhverfismál, sjálfbærni og tækniframfarir og við teljum samstarf okkar við Marel í þeim anda. Brim ætlar sér að vera samkeppnisfært á alþjóðamörkuðum fyrir sjávarafurðir. Til þess þarf gott starfsfólk til sjós og lands, öflug skip og fyrsta flokks tækni og vinnslubúnað. Við lítum framtíðina björtum augum.“

Verkefnið er gott dæmi um áherslu Marel á sjálfbærni. Marel hefur undarfarin misseri unnið að því að greina kolefnisfótspor lausna sinna gegnum allan lífstíma þeirra. Byggt á innsýn þeirra greininga mun Brim geta kolefnisjafnað starfssemi sína bæði hvað varðar kolefnisfótspor vinnslunnar og einnig kolefnisfótspor sem verður til við framleiðslu búnaðarins áður en hann er settur upp í Norðurgarði.

Deila: