Hópur frá LVF  sleikti sólina á Tenerife

Deila:

Þann 14.október s.l fór hópur á vegum starfsmannafélags Loðnuvinnslunnar til Tenerife. Það voru um 100 sveitungar og samstarfsfélagar sem hittust á Egilsstaðaflugvelli árla þennan mánudagsmorgun, tilbúin til þess að eyða einni viku í sólarparadísinni.  Flugferðin til Tenerife gekk vel og rétt eins og hendi væri veifað var hópinn kominn í skjól á Hótel Bitacora sem er staðsett á Amerísku ströndinni, svona til glöggvunar fyrir þá sem eru staðkunnugir. Frá þessu er sagt á heimasíðu Loðnuvinnslunnar.

Heilt yfir var mannskapurinn afar ánægður með ferðina, hlýtt í veðri og sólin á sínum stað þrátt fyrir að ský hafi dregið fyrir sólu stöku sinnum.  Fólk var nokkuð duglegt að hafa ofan af fyrir sér, menn fóru í Go-kart, stunduðu sjósport, óku um eyjuna, böðuðu sig í sólinni, versluðu lítillega og síðast en ekki síst gerðu menn vel við sig í mat og drykk. Morgunverðar-, og kvöldverðarhlaðborð var framreitt á hótelinu og flestir nýttu sér það vel. Loðnuvinnslan bauð síðan öllum hópunum út að borða eina kvöldstund á frábærum veitingastað þar sem veitingarnar voru hinar glæsilegustu bæði hvað varðar útlit og bragð.

Steinar Örn Sigurbjörnsson er í starfsmaður í bræðslunni. Hann hefur farið í margar ferðir með starfsmannafélaginu og greinarhöfundur greip hann glóðvolgan í anddyri hótelsins og innti hann eftir því hvernig ferðin væri búin að vera hjá honum? „Bara æðisleg” svaraði hann að bragði. „Ég er allur að koma til eftir sólbruna, ég gáði ekki alveg nógu vel að mér fyrsta daginn þegar ég var að þvælast í sjónum” sagði Steinar og sýndi greinarhöfundi rauðleitan upphandlegg.  Steinar var ánægður þrátt fyrir óþægindin sem hann hafði gengið í gegn um og sagði að hótelið væri fínt og maturinn fínn. „Ég hef ekki yfir neinu að kvarta” sagði hann að lokum og hélt út í sólina.

Ari Sveinsson er háseti á Sandfelli.  Hann var líka gripinn á göngu sinni um hótelið og spurður út í dvölina. „Þetta er búið að vera mjög fínt,” svaraði hann, „maður hefur bara verið að slaka á, ekki gert svo mikið.”  En bætti svo við að hann og Oddrún Ósk Pálsdóttir kona hans ætla að vera aðra viku svo þau hafa nægan tíma til að gera það sem þau langar.  Ari var ánægður með hótelið og matinn og sagðist bara njóta þess ganga um og  spjalla við vini og kunningja.

Tania Li Mellado sér um ræstingar í bræðslunni og hún var ásamt manni sínum Vilberg Marinó Jónassyni að snæða morgunverð þegar þau fengu greinarhöfund sem óvæntan gest við borð sitt. „Þetta er búið að vera ljómandi góð ferð,” svöruðu  þau aðspurð.  „Við leigðum okkur bíl og ókum til borgarinnar Santa Cruz og versluðum aðeins.” Vilberg hafði skellt sér á Jet Ski og svo  voru þau búin að skoða sig um og ganga heilmikið um svæðið.  Er þetta fyrsta ferð þeirra hjóna til Tenerife því gjarnan liggja leiðir þeirra í sólina til meginlands Spánar þangað sem Tania á ættir að rekja. Tania talar líka spænsku svo að hún á ekki í neinum vandræðum með tjáskipti í spænskumælandi landi.

Við heimkomu til Egilsstaða heilsaði vetur konungur ferðalöngum með sínum köldu krumlum. Hitastig nálægt frostmarki og nokkuð stífur vindur. Allt gekk samt vel og greiðlega og allir komust heilir heim, sem er auðvitað það besta sem hægt er að segja að ferðalokum.

 

Deila: