Mest aflaverðmæti á Austurlandi í ágúst

Deila:

Austurland skýtur höfuðborgarsvæðinu ref fyrir rass þegar litið er á verðmæti landaðs fiskafla í ágúst síðastliðnum. Það hefur ekki gerst undanfarin ár, en skýrist af mikilli löndun á makríl í ágúst. Verðmæti landaðs afla fyrir austan varð 3,9 milljarðar sem er aukning um 78,2% miðað við sama mánuð í fyrra. Aflaverðmætið á höfuðborgarsvæðinu, sem að öllu jöfnu trónir í efsta sæti, varð nú 3,5 milljarðar, sem er 8,3% vöxtur.

Verðmæti landaðs afla á landinu öllu í ágúst var 14,4 milljarðar og jókst um 21,3%, fyrst og fremst vegna hækkandi verð á bolfiski og aukinnar löndunar á makríl.
Verðmæti landaðs afla á Suðurnesjum í ágúst var 2,5 milljarðar króna, sem er vöxtur um 41,5%. Á Norðurlandi eystra varð aflaverðmætið 1,2 milljarðar, sem er aukning um 3,2% frá ágúst í fyrra. Norðurland vestra fylgir fast á eftir með 1 milljarð, sem þó er samdráttur um 3,1%

Verðmæti landaðs afla á Suðurlandi varð 612 milljónir, sem er samdráttur um 23%. Á Vestfjörðum varð aflaverðmæti nánast það sama og í fyrra eða 589 milljónir. Samdráttur um 16,9% varð í verðmæti landaðs afla á Vesturlandi en þar varð verðmætið 400 milljónir króna.

Deila: