Komnir á kolmunna á ný

Deila:

Bjarni Ólafsson AK og grænlenska skipið Polar Amaroq héldu til kolmunnaveiða frá Neskaupstað fyrir nýliðna helgi. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Sigurð Grétar Guðmundsson skipstjóra á Polar Amaroq og Gísla Runólfsson skipstjóra á Bjarna Ólafssyni áður en skipin létu úr höfn.

Sigurður sagði að skipin hefðu hafið kolmunnaveiðar á svipuðum tíma í fyrra. „Við reiknum með að byrja að leita austan við Færeyjar en það hefur oft verið veiði austan og norðaustan við eyjarnar á þessum árstíma. Annars hafa litlar fréttir borist af kolmunna í færeysku lögsögunni ennþá en bæði Víkingur og Venus eru komnir á miðin,“ sagði Sigurður.

Gísli sagðist vonast til þess að menn finndu kolmunnann fljótlega. „Í fyrra féldum við til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni að kvöldi 16. nóvember og lönduðum fyrsta farminum, 1.700 tonnum, hinn 28. nóvember. Vonandi gengur þetta með svipuðum hætti núna,“ sagði Gísli.

Nýjustu fréttir herma að skipin hafi byrjað að toga í morgun norður af Færeyjum.

Á myndinni er Polar Amaroq fyrir brottför í Neskaupstað. Ljósmynd Smári Geirson.

 

Deila: