Veit ekki hvort lög hafa verið brotin

Deila:

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, segir að sér hafi runnið blóðið til skyldunnar þegar honum bauðst að taka við stöðu forstjóra fyrirtækisins, seint á miðvikudagskvöld. Daginn eftir var tilkynnt að Þorsteinn Már Baldvinsson myndi draga sig í hlé meðan innri rannsókn fyrirtækisins á starfsemi Samherja í Namibíu stendur yfir, en hún er í höndum norskrar lögmannsstofu og sagði Björgólfur í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gærmorgun að til standi að birta niðurstöður rannsóknarinnar. Frá þessu er greint á visir.is

„Það vilja allir vinna heiðarlega. Það vilja allir gera hlutina samkvæmt lögum og ég trúi því að Samherji hafi verið á þeirri vegferð. Það á eftir að koma í ljós hvað kemur út úr þessari rannsókn,“ segir Björgólfur, en Samherji réði norsku lögmannsstofuna Wiborg Rein til þess að rannsaka þær ásakanir á hendur fyrirtækinu sem fram komu í umfjöllun Kveiks á þriðjudag. Meðal þess sem þar kom fram var að Samherji hefði mútað ráðamönnum í Namibíu til þess að komast yfir kvóta í hafsögu landsins.

Björgólfur segir að lögmannsstofan komi til með að fá fullt frelsi til þess að sinna rannsókn málsins.

„Það koma niðurstöður úr þessari rannsókn, og þær verða auðvitað birtar. Við skulum átta okkur á því að eftir umfjöllun Kveiks hefur þetta fyrirtæki [Samherji] beðið álitshnekki,“ segir Björgólfur og bætir við að það sé verðmætt fyrir félög á borð við Samherja að orðspor þeirra sé gott. Hann segir mikilvægt að Samherji endurheimti orðspor sitt, og geri það af auðmýkt.

Samherji geti ekkert falið

„Það er okkar hlutverk að skýra frá niðurstöðunum. Ef þú ætlar að endurvinna traust og trúnað fólks, þá verður þú að segja hlutina eins og þeir eru. Ég er auðvitað að vona að það sé ekki mikið þarna sem gengið hefur á sem stenst ekki lög. En ég veit það ekki,“ segir Björgólfur.

Hann segir að ef rannsóknin leiði í ljós ólöglegt athæfi af hálfu Samherja þurfi hann einfaldlega að standa frammi fyrir starfsmönnum fyrirtækisins og öðrum, og skýra frá því.

„Við getum ekkert falið í þessu. Stjórnin setur þetta í þennan farveg, hún vill vinna samkvæmt lögum og reglum. Fyrirtækið er með starfsemi í tólf löndum, þannig það er afskaplega mikilvægt að það komi ekki upp einhverjir álitshnekkir úti um allan heim.“

Viðtalið við Björgólf í Sprengisandi má heyra hér að neðan.
https://www.visir.is/g/2019191118937/forstjori-samherja-veit-ekki-hvort-log-voru-brotin

Deila: