Ingi Jóhann nýr stjórnarformaður SVN

Deila:

Þorsteinn Már Baldvinsson hefur óskað eftir ótímabundnu leyfi frá stjórnarstörfum hjá Síldarvinnslunni. Ingi Jóhann Guðmundsson tekur við formennsku stjórnar á meðan. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Síldarvinnslunni. Halldór Jónasson varamaður stígur inn í stjórnina. Ingi Jóhann er framkvæmdastjóri Gjögurs, sem gerir út togbátana Áskel og Vörð, sem eru nýsmíði, nýlega komnir til landsins. Gjögur er einn af hluthöfum Síldarvinnslunnar.

Í gær vék Þorsteinn sem stjórnarformaður færeyska útgerðarfélagsins Framherja. Færeyingurinn Árni Absalonsen tekur sæti Þorsteins Más í stjórninni og Elisabeth D. Eldevig Olsen verður stjórnarformaður. Þetta kemur fram á færeyska vefnum VP.

Þorsteinn Már vék sem forstjóri Samherja fyrir helgi eftir að fréttaskýringaþátturinn Kveikur birti upplýsingar sem benda til þess að fyrirtækið hafi mútað namibískum stjórnmála- og embættismönnum til að fá hrossamakrílskvóta.

Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Síldarvinnslunnar og Icelandair, tók við forstjórastól Samherja af Þorsteini Má.

 

 

Deila: