Erindi um vistkerfisþjónustu hvala

Deila:

Gestur vikunnar í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða dr. David Cook mun fjalla um rannsóknir á vegum ARCPATH-verkefnisins (Arctic Climate Predictions – Pathways to Resilient, Sustainable Societies) á vistkerfisþjónustu hvala og segja frá nýjustu niðurstöðum þessara rannsókna. Meginþema erindisins er hvaða gagn íbúar á Norðurslóðum geta haft af hvölum, hvernig hægt er að gera grein fyrir gildi þeirra í ákvarðanatöku og hvaða málamiðlanir hafa verið að eiga sér stað á  milli aðila ferðaþjónustunnar og heimamanna. Skoðuð verða dæmi úr tilviksrannsóknum ARCPATH sem hafa farið fram á Húsavík, í Andenes í Noregi auk Diskóflóa á Grænlandi.

Erindinu verður streymt á netinu á YouTube rás Háskólaseturs og hefst útsending kl. 12:10.

David er nýdoktor við Háskóla Íslands og beinast rannsóknir hans að vistkerfisþjónustu hvala á Norðurslóðum. Í doktorsrannsókn sinni skoðaði David vistkerfisþjónustu sem á rætur sínar að rekja til jarðhitasvæða og notaði hann skilyrta matsaðferð til að meta viljann til þess að fjármagna verndun slíkra svæða á Íslandi. Í öðrum nýlegum rannsóknum hans hefur sjónum verið beint að t.a.m. sjálfbærni umhverfis og áhættustjórnun á Norðurslóðum. Auk þess heldur David fyrirlestra á sviði umhverfishagfræði við Háskóla Íslands. Hann er nú kominn til Ísafjarðar til að kenna námskeið í hagfræði, Resource Economics and Policy, við Háskólasetrið.

Vísindaportið fer að vanda fram í kaffistofu Háskólaseturs í dag kl. 12:10-13 og verður dagskráin að þessu sinni á ensku. Allir velkomnir.

 

Deila: