Mikill þorskafli við Færeyjar

Deila:

Landanir á botnfiski og skelfiski jukust um 14% í Færeyjum á fyrstu 10 mánuðum árins. Alls var landað 73.520 tonnum af þessum fisktegundum sem er vöxtur um 7.400 tonn miðað við sama tíma í fyrra. Mikil aukning hefur orðið í löndunum af þorski. Þær námu nú ríflega 22.000 tonnum og jukust um 8.420 tonn eða 62% frá sama tíma í fyrra.

Aðra sögu er að segja af ufsanum. Af honum var nú landað 16.155. Það er samdráttur um 3.224 tonn eða tæp 17%. Tæplega 7.000 tonn af ýsu bárust á land á tímabilinu nú, sem er aukning um 2.900 tonn, eða 71%. Afli af þorski og ýsu hefur vaxið hratt síðustu misserin eftir afar rýr aflaár frá árunum upp úr 2000. Á móti hefur ufsaaflinn fallið verulega eftir mörg góð ár.

Af öðrum tegundum má nefna að skötuselsafli var nú 1.510 tonn, sem er ríflega tvöföldun frá árinu áður. Af grálúðu bárust 2.22 tonn á land sem er samdráttur um tæplega þriðjung. Loks fór skelfiskafli úr 1.113 tonnum í 3.488 tonn, sem er 65% vöxtur.

Aflaverðmæti hækkaði um 19% og stafar það fyrst og fremst af breyttri samsetningu aflans. Hærra hlutfall er af þorski og ýsu sem eru dýrari tegundir en ufsinn. Annars gefur aflavermætið til kynna að liltar verðbreytingar hafi orðið á helstu tegundum milli þessara tímabila.

Deila: