Síldin breytti samfélaginu

Deila:

Síldveiðar Íslendinga frá síðari hluta 19. aldar og fram yfir miðja 20. öldina höfðu gríðarleg áhrif á íslenskt samfélag. Síldveiðarnar urðu beinlínis til þess að margt fólk sem árum saman hafði neyðst til að búa í vist hjá vandalausum og vinna kauplaust gat komið undir sig fótunum og orðið sjálfstætt. Þetta segir Páll Baldvin Baldvinsson, sem hefur skráð síldarsögu þjóðarinnar í bókinni Síldarárin 1867-1969. Rætt er við hann á ruv.is

Páll Baldvin segir að síldveiðarnar hafa áorkað mörgum fleiri breytingum í samfélaginu. Síldin hafi fleytt áfram skipamenningu þjóðarinnar, skipa- og veiðarbúnaður tók stórstígum framförum; veiðarnar urðu vélvæddar.

Páll Baldvin segir að í raun hafi síldin orðið gjaldmiðill þjóðarinnar í viðskiptum við aðrar þjóðir. Á tímabili hafi meira en helmingur af útflutningstekjum þjóðarinnar komið af síldarsölu til annarra þjóða. Því hafi höggið verið þess þyngra þegar síldin hvarf af miðunum undir lok 7. áratugarins.

Í bókinni er vitnað í heimildir frá 1639 um fullan fjörð af síld, en Páll segir að síldveiðar hefjist þó ekki fyrr en rúmum tveimur öldum síðar, fram að því hafi Íslendingar hreinlega ekki kunnað að veiða síld með skipulegum hætti. Þeir hafi ekki kunnað að verka hana, salta eða geyma með öðrum hætti. Þegar norskir timburkaupmenn fóru svo að venja komur sínar til landsins um miðja 19. öld, þá sáu þeir hversu svartur sjórinn hafi verið af síld og þar í landi vissu menn gjörla hversu mikil verðmæti fólust í síldinni.

Á næstu áratugum byggðust upp fjölmennir bæir á Austfjörðum og Norðurlandi, þar sem Seyðisfjörður og Siglufjörður eru kannski þekktastir. Þarna var síldinni mokað upp og svo mikil eftirspurn var eftir vinnafli að það var á tímabili flutt inn, frá Noregi og víðar.

Bókina prýða á annað þúsund ljósmynda, Páll segir að þeirra sé aflað víða; á ljósmyndasöfnum, héraðssöfnum og úr einkasöfnum fólks.

Hann segir að vinnan við bókina hafi tekið um 3 ár. Oft hafi heimildir verið veikar og erfitt að finna heimildir um síldveiðar og -vinnslu í mörgum byggðalögum.

Páll Baldvin segir að erfiðast af öllu hafi verið að finna heimildir um allar konurnar sem unnu í síldinni. Eins og margar aðrar sögur sé þetta saga karla, en Páll Baldvin tileinkar bókina öllum þessum konum, formæðrum okkar, eins og hann segir í bókinni.

 

Deila: