Mjög góð veiðiferð Viðeyjar

Deila:

Ísfisktogarinn Viðey RE er nú í höfn í Reykjavík eftir mjög góða sex daga veiðiferð. Skipið var með fullfermi eða 190 tonn af fiski upp úr sjó. Skipstjóri í veiðiferðinni var Kristján E. Gíslason og þakkar hann ekki síst frábæru skipi og áhöfn fyrir þennan góða árangur.

,,Við hófum veiðar vestur af Jökli en þar var góð karfaveiði. Við sigldum þaðan í eina 18 tíma norður og austur á Strandagrunn. Þar var mjög góð þorskveiði en þorskurinn hefur verið frekar vandveiddur það sem af er vetri. Við færðum okkur svo vestur á Halann og fengum þar góða þorsk- og ufsaveiði,“ segir Kristján í samtali á heimasíðu Brims.

Á Halanum voru svo Kristján og skipverjar á Viðey um hríð en þá gerði óveður.

,,Við hröktust á brott undan veðrinu og ég ákvað að sigla beint suður á okkar gömlu heimaslóðir á Fjöllunum. Það klikkaði ekki frekar en endranær. Við vorum þar í nokkra tíma í mjög góðri karfaveiði og einnig í ufsa og þessar stundir dugðu til að fylla körin og ná fullfermi,“ sagði Kristján E. Gíslason.

 

 

Deila: