Sterk staða Marel á vaxandi markaði
„Tekjur ársins 2019 voru tæplega 1,3 milljarðar evra sem þýðir 7% tekjuvöxt frá fyrra ári, á meðan EBIT lækkaði örlítið á milli ára. Undanfarnir 18 mánuðir hafa verið býsna krefjandi þar sem markaðsaðstæður lituðust af umróti á heimsmörkuðum og viðskiptahindrunum. Stöðug nýsköpun og náið samstarf við viðskiptavini um heim allan hafa gert okkur kleift að halda áfram vegferð okkar að umbreyta matvælaframleiðslu,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel.
„Fyrstu vikur ársins 2020 gefa góð fyrirheit um framhaldið, einkum í kjúklingaiðnaði þar sem fjárfestingarþörf er augljóslega að aukast. Við áttum frábæra síðustu viku á IPPE kjúklinga- og kjötsýningunni í Atlanta í Bandaríkjunum. Þar frumsýndum við nokkrar tímamótalausnir sem munu auka sjálfvirkni og bæta nýtingu afurða sem framleiddar verða á öruggan og sjálfbæran hátt. Þessi sýning var ein sú allra besta og skilaði okkur pöntunum og fjölmörgum spennandi framtíðarverkefnum. Eitt slíkt er samningur okkar við Bell & Evans um hönnun og uppbyggingu á nýrri og byltingarkenndri hátækni kjúklingaverksmiðju í Bandaríkjunum.
Vegna breytinga í tekjusamsetningu milli vörutegunda og heimshluta á síðasta ári jókst kostnaður sem hafði áhrif á framlegð og rekstrarkostnað og leiddi til lægri rekstrarniðurstöðu á fjórða ársfjórðungi 2019. Við aukum nú framleiðslu skref fyrir skref og búumst við því að tekjur og rekstrarniðurstaða fari jafnt og þétt batnandi á árinu. Í ljósi fjárfestingar félagsins í innviðum og hugbúnaði erum við í góðri stöðu til að hagræða í framleiðslu og stoðsviðum á meðan við höldum áfram fjárfestingum í stafrænni vegferð og framlínu félagsins í sölu og þjónustu til viðskiptavina.
Heilt á litið var 2019 viðburðaríkt ár þar sem við styrktum grundvöll félagsins með fjárfestingum og aðgerðum í samræmi við stefnu félagsins. Vel heppnuð skráning hlutabréfa Marel í Euronext kauphöllinni í Amsterdam í júní, og ný langtímafjármögnun upp á 700 milljónir evra sem við tilkynnum um í dag, munu styðja vel við metnaðarfull vaxtar- og afkomuáform okkar fram til ársins 2026,“ segir Árni Oddur ennfremur.
Vel heppnuð skráning Marel í kauphöllina í Amsterdam
Öllum lykilmarkmiðum tvískráningarinnar i Euronext kauphöllina í Amsterdam var náð, þar má helst nefna aukið aðgengi að breiðari hópi alþjóðlegra fjárfesta (frá 3% á aðalfundi Marel 2018 upp í 30% eftir tvískráningu), sýnileika félagsins og umfjöllun greiningaraðila (í dag fylgja níu greiningaraðilar félaginu), sem og að ná fram auknum seljanleika bréfanna á alþjóðavísu sem veitir félaginu gjaldmiðil í tengslum við fyrirtækjakaup sem styður við fyrirætlanir félagsins um langtímavöxt og virðisaukningu.
Yfir 4.700 fjárfestar tóku þátt í útboðinu, en til samanburðar voru hluthafar félagsins um 2.500 talsins fyrir tvískráninguna.
Lokaverð í hlutafjárútboðinu var ákveðið 3,7 evrur á hlut, verð í fyrstu viðskiptum nam 3,85 þann 7. júní 2019 en lokagengi á fyrsta viðskiptadegi nam 3,90 evrum á hlut. Virkur eftirmarkaður hefur verið með bréf Marel en verð hlutabréfanna var EUR 4,25 evrur við lokun markaðar í Amsterdam þann 4. febrúar 2020.
Tillaga um arðgreiðslu
Stjórn Marel mun leggja til við aðalfund félagsins, sem haldinn verður þann 18.mars nk., að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2019 sem nemur 5,79 evru sentum á hlut. Áætluð heildararðgreiðsla nemur um 44,0 milljónum evra sem samsvarar um það bil 40% af hagnaði ársins, sem nam 110,1 milljónum evra. Tillagan er í samræmi við markmið félagsins um fjármagnsskipan og arðgreiðslustefnu.
Verði tillagan samþykkt af hluthöfum félagsins, munu hlutabréf sem skipta um hendur frá og með 20. mars 2020 (e. ex-date = arðleysisdagur) verða án arðsréttinda og réttur hluthafa til arðgreiðslu verður miðaður við hlutaskrá félagsins í lok viðskipta þann 23. mars 2020 sem yrði arðsréttindadagur (e. record date). Stjórn Marel leggur til að arður verði greiddur út þann 8. apríl 2020 (e. payment date).
Hluthafar í Marel sem eiga bréf í Euronext kauphöllinni í Amsterdam fá arðgreiðslu í evrum. Hluthafar í Marel sem eiga bréf á Nasdaq Iceland fá arðgreiðslu í íslenskum krónum, sem byggir á EUR/ISK miðgengi Seðlabanka Íslands eins og það er tilgreint á hluthafafundi félagsins.
Horfur
Markaðsaðstæður hafa verið einstaklega góðar á síðustu árum en síðustu 18 mánuðir hafa verið krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði. Marel gerir ráð fyrir auknum tekjum og bættri arðsemi jafnt og þétt eftir því sem líður á árið 2020.
Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði, til meðallangs tíma.
Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.
- Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
- Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
- Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.
Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði því ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.“