Loðna við Langanes

301
Deila:

Loðna hefur fundist við landgrunnsbrúnina norðaustur af Langanesi þar sem fjögur uppsjávarskip eru við rannsóknir. Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri á Árna Friðrikssyni, segir í samtali við ruv.is of snemmt að segja til um hvað þarna er mikið af loðnu.

Birkir segir það koma í ljós þegar skipin hafi farið yfir stærra svæði, hvort þetta er einhver almennileg viðbót eða ekki. Skipin muni fara með landgrunnsbrúninni og einnig skoða svæði nær landinu, en þessi loðna gæti gengið upp á grunnið fyrir norðan land. Engin loðna fannst á þessu svæði í síðasta rannsóknarleiðangri og Birkir segir að hún hafi því gengið þangað austur síðan þá.

Árni Friðriksson er við mælingar í Grænlandssundi og heldur þaðan austur með Norðurlandi. Birkir segir þá hafa orðið vara við ungloðnu vestast á þessu svæði en nú sé eitthvað að aukast hlutfall af kynþroska loðnu.

Þessi rannsóknarleiðangur hófst á laugardag, en Árni Friðriksson lét úr höfn á sunnudag. Veiðiskipin hafa nú leitað undan öllu Austurlandi og eru komin norður fyrir Langanes. Árni fór vestur fyrir land og áætlað er að skipin mætist norður af landinu einhvern næstu daga. Birkir segir ekki víst að það verði fyrr en eftir helgi. Hann segir þá hafa þrjár vikur í þetta verkefni á Árna, en veiðiskipin verði ekki svo lengi.

 

Deila: