Sjávarklasinn veitir viðurkenningar

Íslenski sjávarklasinn veitir á hverju ári sérstakar viðurkenningar til fólks eða fyrirtækja sem eflt hefur fyrir samstarf innan klasans en klasahugmyndafræðin gengur út á að efla samstarf og skapa þannig verðmæti. Að þessu sinni eru þrír aðilar sem hljóta viðurkenningar. „Þessir aðilar eiga það sameiginlegt að hafa stuðlað að öflugra samstarfi fólks innan sjávarklasans á Íslandi og stuðlað að aukinni verðmætasköpun í því frumkvöðlasamfélagi sem hefur verið til staðar í Húsi sjávarklasans. Kristján Þór Júlíusson,, sjávarútvegsráðherra afhenti viðurkenningarnar.
Það sem einkennir fyrst og fremst þá aðila sem hljóta viðurkenningarnar að þessu sinni er að þau hafa hvert á sinn hátt leitt samstarf sem eflt hefur frumkvöðlasamfélagið innan Sjávarklasans,“ segir í frétt frá Íslenska sjávarklasanum
Í fyrsta lagi fær Sjávarútvegsráðstefnan viðurkenningu fyrir brautryðjendastarf við að tengja fólk í sjávarútvegi saman með árlegri ráðstefnu sem nú hefur verið haldin í áratug. Sjávarútvegsráðstefnan hefur stuðlað að aukinni umræðu á fjölmörgum sviðum sjávarútvegs og eflt með því tengsl og skapandi hugsun í greininni. Hólmfríður Sveinsdóttir formaður stjórnar Sjávarútvegsráðstefnunnar tók við viðurkenningunni fyrir hönd Sjávarútvegsráðstefnunnar
Þá hlýtur Spakur ehf viðurkenningu fyrir ötult starf við að tengja saman fjárfesta og frumkvöðla í klasanum. Þau Helga Viðardóttir og Jökull Jóhannsson stofnendur Spaks hafa átt ríkan þátt í að brúa bilið á milli þessara aðila og skapa þannig grundvöll fyrir frekara frumkvöðlastarfi í klasanum.
Loks hlýtur fyrirtækið Magnea bátar, sem er nýsköpunarteymi um rafskip í eigu Navis, viðurkenningu fyrir að vekja athygli á mikilvægi umhverfislausna í skiparekstri hérlendis og að hvetja til samstarfs um nýsköpun á því sviði. Samstarf Magnes báta og Greenvolt, sem varð til í Húsi sjávarklasans, er gott dæmi um samstarf sem skilað getur umtalsverðum árangri og nýsköpun. Bjarni Hjartarson og Kári Logason tók við viðurkenningunni fyrir hönd Magnea báta.
Sjávarklasinn byggist fyrst og fremst á fólki og ekki síst frumkvöðlum sem eru tilbúin að hjálpa öðrum og hafa brennandi áhuga á því að sjá hugmyndir verða að veruleika. Þeir einstaklingar og fyrirtæki, sem hljóta þessa viðurkenningu Sjávarklasans eru einmitt góðar fyrirmyndir í þessum efnum.