Biðst afsökunar á gjaldþroti Ísfisks

261
Deila:

Stjórn Ísfisks lýsir vonbrigðum með það að lýsa hafi þurft fyrirtækið gjaldþrota. Það gerði stjórn fyrirtækisins eftir að hafa reynt í fjóra mánuði að endurskipuleggja og fjármagna rekstur fyrirtækisins. Í yfirlýsingu frá stjórninni segir að hún harmi að hafa brugðist samfélaginu á Akranesi. Frá þessu er sagt á ruv.is

Um 60 starfsmönnum Ísfisks var sagt upp undir lok september. Þá sögðust stjórnendur fyrirtækisins vonast til að koma starfseminni í gang á ný sem fyrst. Stjórnendur fengu vilyrði fyrir lánveitingu frá Byggðastofnun en þurftu að uppfylla ákveðin skilyrði. Í yfirlýsingu frá stjórn Ísfisks segir að reynt hafi verið í nokkra mánuði að loka fjármögnun félagsins „en út af stóð að það gekk ekki að fjármagna fasteignina sem starfsemin flutti í fyrir nokkru“.  Leitað var til nokkurra aðila um fjármögnun en án árangurs.

„Stjórn Ísfisks er svekkt yfir þessum málalokum og harmar þau í ljósi stöðu atvinnulífs og þess umhverfis rekstrar sem stjórnvöld hafs sett okkur í um áratuga skeið,“ segir í yfirlýsingunni. „Ísfiskur vill þakka starfsfólki sínu þolinmæði og samstöðu í okkar garð. Einnig bæjarstjórn á Akranesi, bæjarstjóra, verkalýðsfálaginu og samfélaginu öllu sem tók okkur vel. Við hörmum að hafa brugðist ykkur.“

Starfsfólk Ísfisks hefur ekki fengið greidd laun síðustu mánuði. Þar sem stjórnendur reyndu að bjarga rekstrinum var það ekki tekið til gjaldþrotaskipta fyrr en rúmum fjórum mánuðum eftir uppsagnir. Því dróst það að fólk gæti lýst kröfu í Ábyrgðarsjóð launa.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, sagði í viðtali við RÚV í gær að launaskuldir fyrirtækisins við starfsmenn væru hátt í 40 milljónir króna. Verkalýðsfélagið hyggst lána starfsfólki 250 þúsund krónur hverju um sig upp í kröfur í Ábyrgðarsjóðinn.

 

Deila: