RÚV leiðréttir fullyrðingu um Samherja
„Fréttastofa RÚV telur rétt að leiðrétta fullyrðingu í frétt um þróunaraðstoð og spillingu sem birtist á fimmtudag þar sem sagt var að Samherji hefði aflað sér kvóta með því að múta embættismönnum í Namibíu og vísað til umfjöllunar Kveiks. Hið rétta er að Samherji hefur verið borinn þeim sökum.“
Svo segir í færslu á ruv.is í gær. Færslan er enn fremur svohljóðandi:
„Samherji birti í dag bréf þar sem afsökunarbeiðni og leiðréttingar var krafist á meiðandi fréttaflutningi.
Fréttin snerist um þróunaraðstoð og spillingu og þar var fullyrt að „Samherja hins vegar að afla sér kvóta með því að múta embættismönnum, eins og fjallað var um í Kveik.“ Fréttin var aldrei birt á vef RÚV.
Í leiðréttingu fréttastofu kemur fram að Kveikur greindi frá því að Samherji hefði greitt namibískum embættismönnum háar fjárhæðir í greiðslur og þær voru að sögn fyrrverandi starfsmanns Samherja mútur. Sérfræðingur í spillingarmálum sem rætt var við í þættinum sagði sömuleiðis að greiðslurnar bæru með sér að vera mútur.
Starfsmenn Samherja hafa ekki verið sakfelldir eða ákærðir fyrir slík brot en málið er enn í rannsókn. Nokkrir namibískir embættismenn hafa verið ákærðir fyrir að þiggja mútur í tegnslum við kvótaúthlutanir sem tengjast Samherja og eru þau mál nú rekin fyrir dómstólum í Namibíu,
Fréttastofan biðst velvirðingar á þeirri staðhæfingu sem fram kom í fréttinni á fimmtudag en ítrekar að allt sem kom fram í þætti Kveiks um Samherjamálið 12.nóvember 2019 og í öðrum fréttum um málið, stendur.“