Færeysk skip á sölulista

352
Deila:

Nú er komin hreyfing á endurnýjun fiskiskipa í Færeyjum eftir að ný lög um stjórnun fiskveiða tóku gildi um áramótin. Floti uppsjávarveiðiskipa er farinn að eldast. Engin nýsmíði hefur komið inn í flota Færeyinga í 10 ár. Síðasta nýsmíðin er uppsjávarveiðiskipið Tróndur í Götu sem kom nýr til eyjanna 2010 og Nordborg 2009. Nýjasta skipið er hins vegar Gitte Henning, sem keypt hefur verið frá Danmörku. Hún er nokkuð ný af nálinni, aðeins tveggja ára. Högaberg var smíðað 2014, en var ekki smíðað fyrir Færeyinga, heldur Norðmenn en var síðar keypt til Færeyja.

Næst má nefna Finn Fríða, Borgaran og Norðing, sem eru smíðuð 2003 og eru því 17 ára. Þá kemur Christian Í Grótinum frá 2002. Jupiter, Arctic Voyager, Katrin Jóhanna og Fagrabergeru eru á þrítugsaldri. Næst elsta skipið í þessum flota er Fram, sem er 31 árs og loks er Hoyvík elst, 41 árs.

Mörg skip á sölulista

Fregnir herma að þegar séu hafnar viðræður um endurnýjun margra þessara skipa eftir breytta fiskveiðistjórnun. Sex skip hafa þegar verið sett á sölulista, en það eru Jupiter, Arctic Voyager, Fram, Hoyvík, Christian í Grótinum og Sættaberg, en það síðastnefnda er ekki í útgerð nú.

Loks má nefna að tvö skip, sem vinna aflann um borð eru ekki í þessari upptalningu, en það eru Tummas og Næraberg.

 

 

Deila: