Fiskeldið breytir Vestfjörðum

149
Deila:

Vestfirðir eru kjölfestan í uppgangi fiskeldis síðustu ár og þar eru miklir möguleikar til áframhaldandi vaxtar á komandi árum. Áhrifa fiskeldisuppbyggingarinnar á svæðinu gætir nú þegar í byggðaþróuninni, ekki hvað síst á sunnanverðum Vestfjörðum. Í fjórðungnum var um helmingur fiskeldisframleiðslunnar á síðasta ári í magni. Jákvæð áhrif fiskeldisins á atvinnulíf á Vestfjörðum eru nú þegar orðin nokkur að mati Sigríðar Ólafar Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu og Guðrúnar Önnu Finnbogadóttur verkefnastjóra Vestfjarðastofu og er óhætt að tala um að hrein bylting verði á komandi árum á svæðinu, gangi uppbygging greinarinnar eftir á þann hátt sem heimamenn vænta. Vandinn sé hins vegar sá að þunglamalegt kerfi í úthlutun eldisleyfa og uppbyggingu innviða hafi nú þegar orðið þess valdandi að tækifæri hafi glatast.

Hundruð nýrra starfa þegar orðin til

Tvö af stærstu laxeldisfyrirtækjum landsins eru á Vestfjörðum, þ.e. Arnarlax ehf. og Artic Fish ehf. Bein störf hjá þessum fyrirtækjum nálgast 200 en þá er ótalinn mikill fjöldi afleiddra starfa sem starfsemin skapar á svæðinu. Þess utan eru minni sjóeldisfyrirtæki á Vestfjörðum, t.d. Háafell ehf., Háabrún ehf. og ÍS 47 ehf. en að auki eru einnig fyrirtæki í landeldi. Lax er því yfirgnæfandi meirihluti framleiðslunnar í vestfirsku fiskeldi en aðrar tegundir eru bleikja og regnbogasilungur.

„Fiskeldið hjá okkur er á Patreksfirði, Tálknafirði, Arnarfirði, Dýrafirði og einnig voru komin leyfi í Önundarfirði sem síðan voru dregin til baka í lok janúar sl. Væntingar eru til þess að leyfi fáist til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi þannig að við horfum til þess að atvinnugreinin nái góðri fótfestu á bæði sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum, gangi allt að óskum,“ segir Guðrún Anna.

Kerfið er hamlandi

Þau leyfi sem til staðar eru í dag á Vestfjörðum gefa tæplega 20 þúsund tonna framleiðslu en áform um áframhaldandi þróun eru bundin því að frekari leyfi fáist. Metið burðarþol svæðisins er um 80 þúsund tonn en áhættumat leyfir um 50 þúsund tonna framleiðslu. Dæmi eru um að fyrirtæki á svæðinu hafi beðið eftir svörum um fiskeldisleyfi í átta ár sem þær Sigríður og Guðrún Anna segja ótækt og vitanlega hamlandi á uppbygginguna. Samkvæmt nýju fiskeldislögunum sem sett voru í fyrra ber Hafrannsóknastofnun að gera nýtt áhættumat fyrir Vestfirði eins hratt og auðið er og taka tillit til ákveðinna mótvægisatriða í því mati.

Guðrún Anna

„Í raun höfum við síðan þá beðið frá mánuði til mánaðar eftir niðurstöðu úr þeirri vinnu en hún er ekki komin enn. Árið 2004 var fiskeldi bannað við strendur Íslands nema á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði en það er eins og stjórnvöld hafi látið þar staðar numið í mörg ár og ekki hugsað hvað þurfi að gera til að byggja upp nýja atvinnugrein, þ.e. hvaða innviðir þurfi að vera til staðar í formi rannsókna, eftirlitsstarfsemi og fleira. Síðustu ár hefur ferlið heldur versnað því árið 2010 fengust svör við umsóknum um eldisleyfi á 8 mánuðum en nú erum við með dæmi um fyrirtæki sem hafa beðið svara við umsóknum um leyfi í 8 ár. Það er eins og ekki sé einhugur um stefnuna hjá stjórnvöldum en að mínu mati er augljóst að ef við ætlum að byggja upp öfluga atvinnugrein í fiskeldinu þá þurfa líka allar opinberar stofnanir sem að greininni koma að eflast á þessu sviði, s.s. Hafrannsóknastofnun, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun. Ég upplifi þetta þannig að við séum enn hikandi gagnvart því hvort við ætlum okkur að grípa tækifærið til að byggja fiskeldið upp sem öfluga atvinnugrein eða ekki,“ segir Guðrún Anna.

Skilvirkari umgjörð lykilatriði fyrir umhverfi og samfélag

Sigríður Ólöf

Sigríður tekur undir þetta og bendir á ferðaþjónustuna í þessu samhengi. „Ég starfaði áður í ferðaþjónustunni og þar stóðum við með sama hætti á sínum tíma frammi fyrir því að opinberu stofnanirnar fengu ekki fjármagn til að fylgja vexti ferðaþjónustunnar eftir. Hvort tveggja eru þetta greinar sem hafa áhrif á umhverfi sitt, þær krefjast ákveðinnar umgjarðar og sjálfbærni þarf að vera leiðarljós í báðum greinum. Okkar ákall er að umgjörð um fiskeldið sé í lagi, umhverfisáhrif í lágmarki og góður fyrirsjáanleiki sé fyrir þau fyrirtæki sem starfa í greininni. Þau þurfa að geta horft fram í tímann og gert sínar áætlanir. Sama á við um sveitarfélögin. Við getum nefnt húsnæðismál, opinbera þjónustu, skóla, leikskóla, hafnarmannvirki, skipulagsmál og margt fleira. Sveitarfélögin þurfa samkvæmt þessum nýju lögum að sækja um stuðning úr sjóði sem fjármagnaður er með tekjum af fiskeldinu án þess að hafa nokkra vissu um hvort og hvaða fjármuni þau fái til innviðauppbyggingar. Þarna er enginn fyrirsjáanleiki til framtíðar.

Í fiskeldinu eru allir að vanda sig og vilja gera hlutina rétt og vel, ekki síst gagnvart umhverfinu og þess vegna höfum við líka kallað eftir því að eftirlitsstörfin séu sett niður hér á svæðinu. Við erum að horfa á fiskeldið vaxa á Vestfjörðum og Austfjörðum og teljum það eðlilega kröfu að í nærumhverfi greinarinnar séu eftirlitsstörfin vegna hennar staðsett,“ segir Sigríður og nefnir í þessu sambandi einnig að úrbætur í samgöngumálum á Vestfjörðum þurfi að ganga mun hraðar en nú sé áformað. Úrbætur á næstu 10 árum séu alltof langur biðtími.

Byggðirnar eflast á ný – tækifæri fyrir unga fólkið

Guðrún Anna segir engan vafa leika á að fiskeldið styrki byggðirnar verulega. Vestfirðir séu skólabókardæmi um það. „Við sjáum nú þegar áhrifin á byggðaþróun og ekki síst gefur fiskeldið okkur dýrmæta innspýtingu í formi aukinnar fjölbreytni í störfum og dreifingu þeirra á stóru svæði. Við erum að sjá unga menntaða Vestfirðinga flytja aftur heim til að nýta menntun sína í t.d. fóðurfræði, líffræði, tölvufræði, umhverfisfræði, vélstjórn, skipstjórn, rannsóknum og fleiri greinum. Fiskeldið er nefnilega miklu breiðari atvinnugrein en margir halda,“ segir Guðrún Anna og Sigríður bætir við að þó svo að fiskeldið muni þróast til aukinnar sjálfvirknivæðingar þá standi engu að síður eftir dýrmæt störf, fyrir utan afleiddu störfin sem greinin skapi.

„Við horfum ekki síður til afleiddu starfanna og áhrifanna af hliðargreinum fiskeldisins fyrir Vestfirði. Það að unnið sé úr þúsundum eða tugþúsundum tonna af fiski á svæðinu á hverju ári hefur mikil áhrif. Okkar mat er að nú séu Vestfirðir orðinn frábær fjárfestingarkostur, svæði tækifæranna. Fiskeldi á mikinn þátt í því að viðsnúningur er þegar orðinn og af þróun þess mun að stórum hluta ráðast hvernig Vestfirðir þróast næstu ár.“

Viðtal þetta birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri sem gefið er út af Ritformi. Blaðinu er dreift til allra fyrirtækja á landinu og það má einnig nálgast á heimasíðu útgáfunnar ritform.is

Deila: