COVID-19 ógnun við fiskvinnsluna?

221
Deila:

Útbreiðsla kórónaveirunnar COVID-19 ógnar ekki bara heilsu fólks. Hún ógnar líka starfsemi fyrirtækjanna í landinu, þar með talið fiskvinnslunni. Að minnsta kosti tvö mjög stór fyrirtæki hafa því varað starfsfólk sitt við hættunni  og beint ýmsum tilmælum til starfmannasinna. Samherji hefur beint þeim tilmælum til starfsmanna sinna að engar heimsóknir séu leyfðar í starfsstöðvar fyrirtækisins um óákveðinn tíma vegna óvissuástands sem ríkir vegna kórónuveiru, COVID-19.

Þá hefur starfsfólk verið hvatt til þess að draga úr ferðalögum eins og kostur er og sleppa alfarið ferðalögum til skilgreindra áhættusvæða þar sem COVID-19 faraldurinn geisar og smit er talið útbreitt. Er þetta gert í samræmi við tilmæli Embættis landlæknis. Jafnframt hefur Samherji beint þeim tilmælum til starfsmanna að virða fyrirmæli landlæknis um sóttkví ef þeir hafa nýlega verið á skilgreindum áhættusvæðum.

Sextán staðfest smit kórónuveiru hafa nú verið greind hér á landi. Í öllum tilvikum er um að ræða Íslendinga sem höfðu verið á ferðalagi erlendis. Samherji er um þessar mundir að setja upp viðbragðsáætlun í samræmi við tilmæli frá heilbrigðisyfirvöldum ef svo færi að grunur um smit vaknaði meðal áhafna um borð í skipum í útgerðarflota fyrirtækisins. Verður þessi áætlun kynnt fyrir áhafnarmeðlimum um leið og hún liggur fyrir.

Tilmæli framkvæmdastjóra VSV

Nú hafa nokkur tilvik af kórónaveirunni verið greind hér á landi. Brýnt er fyrir starfsfólki að vera skynsamt. Mikilvægt er að nú sem endranær sé vel gætt að hreinlæti og handþvotti sem er afar mikilvæg forvörn gegn smiti.

Landlæknir hefur gefið út tilmæli og uppfærir reglulega stöðuna hér á landi. Mikilvægt er að fara eftir þeim tilmælum sem hann gefur út á hverri stundu. Jafnframt eru starfsmenn hvattir til að fylgjast með upplýsingum sem birtast á heimasíðu landlæknis og í fjölmiðlum hverju sinni.

Hlutverk hvers og eins í sóttvörnum er mikilvægt. Því fleiri sem fara eftir leiðbeiningum um eigin sóttvarnir því líklegra er að hægt verði að takmarka útbreiðslu.

Sóttvarnaraðgerðir eins og sóttkví, einangrun, snögg greining og rakning tilfella eru framkvæmdar í þeim tilgangi að takmarka útbreiðslu. Mikilvægt er að hafa í huga að þó að einstaklingar lendi í þessum aðstæðum er ekki við þá að sakast heldur er um að ræða viðbrögð í almannaþágu.

Mikilvægt er að allir takist á við verkefni sem þetta af yfirvegun og æðruleysi.

Bent er á leiðbeiningar á vef landlæknis um hreinlæti, handþvott og sprittun www.landlaeknir.is

 

Deila: