Loðnubrestur skerðir þorskveiðiheimildir í Barentshafi
Þorskveiðiheimildir íslenskra fiskiskipa innan lögsögu Noregs í Barentshafi í ár verða helmingi minni en í fyrra. Það skýrist af því að engar veiðar verða leyfðar á loðnu hér við land. Kvótinn nú er 2.555 tonn, en var í fyrra 5.586 tonn. Þorskkvótinn innan lögsögu Rússa verður nánast sá sami og í fyrra eða 3.367 tonn.
Samningur Íslands og Noregs um veiðar okkar í Barentshafi byggist annars vegar á ákveðinni veiðireynslu íslenskra skipa í „Smugunni” og hins vegar á skiptum á veiðiheimildum í loðnu fyrir Norðmenn hér við land fyrir þorskveiðiheimildir innan lögsögu þeirra í Barentshafi. Þannig leiðir loðnubrestur hér við land ekki aðeins til tapaðra tekna af loðnuveiðum, heldur einnig til umtalsverðs tekjutaps af veiðunum í Barentshafi.
Þessi mikla skerðing leiðir líklega til þess að færri togarar fari til veiða í Barentshafinu nú en í fyrra. Þá lönduðu sex togarar afla úr lögsögu Norðmanna úr Barentshafi samtals 5.528 tonnum af þorski auk meðafla. Aflahæsta skipið þar var Sólberg ÓF með tæp 1.500 tonn af þorski. Tvö næstu skip þar voru Kleifaberg RE og Örfirisey RE með ríflega 1.000 tonn hvort. Samkvæmt úthlutun nú fær Sólbergið kvóta upp á 422 tonn af þorski. Aflaheimildir Kleifabergs upp á 431 tonn af þorski nú hafa verið færðar yfir á Örfirisey, sem verður þá með heimildir til að veiða 546 tonn af þorski auk meðafla. Þá er Höfrungur lll AK með heimildir til veiða á 458 tonnum af þorski.
Kvótinn í Rússasjó byggist ekki á gagnkvæmum heimildum hér við land og breytist því ekki, nema með hliðsjón af leyfilegum heildarþorskafla í Barentshafi. Hann er nú ríflega 3.000 tonn en að auki hafa íslenskar útgerðir heimildir til að leigja þar kvóta upp á um 2.000 tonn. Það nýttu þær sér í fyrra og þorskafli úr Rússasjó þá var 5.578 tonn. Sex skip sóttu þann afla og fóru þrjú skip þar yfir 1.000 tonn af þorski. Sólberg ÓF var með 1.225 tonn, Blængur NK 1.129 tonn og Örfirisey RE með 1.054 tonn.
Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu verður Höfrungur lll með mestar heimildir, 806 tonn af þorski, Kleifaberg er skráð með 568 tonn og Sólberg með 556 tonn. Gera má ráð fyrir að kvóti Kleifabergsins verði fluttur á annað skip, þar sem það er nú að víkja fyrir Guðmundi í Nesi, sem Útgerðarfélag Reykjavíkur er að kaupa til baka frá Grænlandi.