Úr fótbolta í fiskeldi

387
Deila:

„Þegar ég skráði mig í fiskeldisnámið vissi ég lítið sem ekkert um þessa grein – bara það litla sem ég hafði lesið í fréttum. Vissi hvernig eldisfiskur lítur út en varla mikið meira en það. En svo reyndist námið mjög áhugavert og starfið við fiskeldið er hrikalega skemmtilegt. Mér finnst að ég hafi algjörlega dottið í lukkupottinn að hafa farið þessa leið,“ segir Sara Atladóttir, fóðrari hjá Löxum fiskeldi ehf. á Eskifirði en hún er skemmtilegt dæmi um ungt fólk sem hefur gripið atvinnutækifærið í fiskeldinu á Íslandi.

Sara er uppalinn Hafnfirðingur, alin upp í sannkallaðri íþróttafjölskyldu og lék sjálf knattspyrnu um margra ára skeið en sneri sér síðan að knattspyrnuþjálfun. Sambýlismaður hennar er frá Eskifirði og leið þeirra lá af höfuðborgarsvæðinu austur á firði þar sem Sara tók við þjálfun meistaraflokks kvenna í knattspyrnu fyrir Fjarðabyggð í byrjun og síðan fyrir sameinað félag Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis. Hún vann einnig á leikskóla en eftir fæðingarorlof árið 2018 sá Sara einn daginn auglýsingu um nám í fiskeldi við Háskólann á Hólum. Og þar með tók knattspyrnukonan úr Hafnarfirði 90 gráðu beygju, skráði sig í námið og tók stefnuna inn í algjörlega nýjan og framandi heim fiskeldisins.

„Þegar ég kom í fyrstu lotu í náminu á Hólum haustið 2018 hófst hún á vettvangsheimsóknum til fiskeldisfyrirtækja á Norðurlandi með Ólafi Sigurgeirssyni, einum af kennurum okkar. Áhugi hans og ástríða fyrir fiskeldinu smitaði mig algjörlega strax á fyrstu dögunum og síðan hef ég verið heltekin af fiskeldinu,“ segir Sara sem tók námið föstum tökum og lauk því með diplómagráðu á eins stuttum tíma og hægt er, eða rösklega einu ári. Náminu lauk hún í október síðastliðnum en í febrúar á síðasta ári hóf hún störf hjá Löxum fiskeldi ehf. og er fóðrari á Bjargi, einni af eldisstöðvum fyrirtækisins í Reyðarfirði.

Sér til þess að fiskarnir verði mettir

„Fram að þessu hafði ég aldrei unnið við annað en knattspyrnu og á leikskóla þannig að allt var þetta mjög framandi fyrir mér en líka spennandi. Minn vinnudagur gengur þannig fyrir sig að við förum snemma á morgnana á bát út að fóðurprammanum á Bjargi og 16 eldiskvíum sem eru við hann en þetta er um klukkutíma sigling frá Eskifirði. Þegar þangað er komið fer ég í vinnuaðstöðuna mína á fóðurprammanum þar sem ég sit við tölvuskjái og er með beina tengingu í myndavélarnar í kvíunum og get því fylgst með öllu sem gerist í þeim. Bæði eru myndavélar fyrir ofan kvíarnar og neðan þær þannig að ég get séð vel hvernig staðan er í hverri kví fyrir sig. Úr fóðurprammanum stjórna ég síðan dælingu á fóðrinu út í kvíarnar og sé til þess að fiskurinn fái rétt magn af fóðri og allir fiskar í kvínni verði mettir og líði vel. Hvorki of lítið né of mikið af fóðri því allt snýst um að nýta fóðrið sem best og að ekkert fari til spillis, enda dýrt hráefni,“ segir Sara en vaktin úti við kvíarnar er allt að 12 tíma löng og fyrirkomulagið þannig að unnið er í sjö daga samfleytt og síðan eru næstu sjö dagar frí.

„Við erum þrjú á hverri vakt auk stöðvarstjórans en á meðan ég vinn við fóðrunina eru aðrir starfsmenn að sinna ýmsum þeim daglegu verkefnum sem þarf að huga að í kringum kvíarnar. Pramminn er alveg fastur og stöðugur þannig að mér líður eiginlega bara eins og ég sé inni á skrifstofu en auðvitað getur veðrið verið misjafnt á leiðinni úr og í land. En þetta er stórskemmtileg vinna, áhugaverð, mikil tækni, útivera og ég gæti lengi talið. Það er alltaf gaman að mæta í vinnuna.“

Viðtal þetta birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri. Baðið er gefið út af Ritformi og er því dreift til fyrirtækja á öllu landinu. Blaðið má einnig nálgast á heimasíðu Ritforms, ritform.is

 

Deila: