Hörð veður og lítill afli

131
Deila:

,,Það sem einkennir veiðina hérna er hve veðráttan er hörð. Það dúrar í nokkra tíma á milli bræla og þá er um að gera að koma trollinu í sjó. Nú er verið að spá brælu fram á fimmtudag og það er ekkert annað að gera en bíða veðrið af sér.”

Þetta sagði Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi NS, er heimasíða Brims náði tali af honum fyrr í dag. Venus var þá að kolmunnaveiðum vestur af syðsta odda Írlands en ein níu íslensk skip voru þá á veiðisvæðinu fyrir utan skip frá Færeyjum og Rússlandi.

,,Við erum búnir að landa einu sinni eftir að við byrjuðum aftur á kolmunnaveiðum. Þá vorum við með rúmlega 2.500 tonna afla. Nú erum við búnir að vera átta daga á miðunum og aflinn er kominn í 1.900 tonn. Það er einsýnt að við bætum litlu við vegna veðurútlits fyrr en í lok vikunnar. Þá getum við vonandi verið eitthvað að veiðum,” segir Bergur en Venus og Víkingur AK geta verið allt að hálfan mánuð úti eftir að fyrsta aflanum er dælt í tanka skipanna. Hins vegar er mjög löng sigling frá miðunum til Vopnafjarðar, 900 sjómílur eða þriggja sólarhringa stím.

Deila: