Reikningurinn ekki sendur á skattgreiðendur

161
Deila:

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hún hafi orðið reið þegar hún fékk upplýsingar um kröfur sjávarútvegsfyrirtækja á hendur íslenska ríkinu upp á 10,2 milljarða. Þær kröfur séu ekki góð leið til að „vera á sama báti“. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir að þessi reikningur verði ekki sendur á skattgreiðendur. Þetta kom fram í ræðum þeirra Katrínar og Bjarna þegar Katrín flutti munn­lega skýrslu um áhrif COVID-19 far­ald­urs­ins og um við­brögð stjórn­valda við þeim áhrifum á Alþingi í gær. Kjarninn.is greinir frá þessu.

„Ég vil segja það að hér að ég hef verið gríð­ar­lega ánægð með þá sam­stöðu sem maður hefur skynjað í sam­fé­lag­inu í því að takast á við veiruna. Bæði fyr­ir­tæki og fólk hafa þar sýnt mikla ábyrgð. Flokkar á Alþingi hafa sýnt mikla ábyrgð. Þetta er dýr­mætt.

En þá verður maður líka reiður þegar fyr­ir­tæki í sjáv­ar­út­vegi gera kröfu á ríkið upp á ríf­lega tíu millj­arða vegna mak­rílút­hlut­un­ar.“

Í ræðu sinni um munn­­lega skýrslu for­sæt­is­ráð­herra um áhrif COVID-19 far­ald­­ur­s­ins og um við­brögð stjórn­­­valda við þeim áhrifum á Alþingi í gær, sagði Bjarni að við núver­andi aðstæður þyrftu allir í sam­fé­lag­inu að leggj­ast á árarn­ar. „Því langar mig að segja þetta hér: fisk­veiði­stjórn­un­ar­kerfið okkar er ekki nátt­úru­lög­mál. Það er mann­anna verk. Aðgangur að auð­lind­inni, stjórnun veið­anna, hvernig við viljum tryggja sjálf­bærni veið­anna, hvaða gjald við ætlum að taka í veiði­gjald. Þetta eru allt mál sem við ráðum til lykta hér á Alþingi með lögum og regl­um. Mögu­leg inn­byrðis tog­streita um afla­heim­ildir milli útgerða verður ekki leyst á kostnað skatt­greið­enda. Það verður ekki þannig.

Nú höfum við tekið til varna í þessu svo­kall­aða mak­ríl­máli. Við munum taka til fullra varna og ég hef reyndar góðar vænt­ingar um að við munum hafa sigur í því máli. En ef svo ólík­lega vill til að það mál fari rík­inu í óhag þá er það ein­falt mál í mínum huga að reikn­ing­ur­inn vegna þess verður ekki sendur á skatt­greið­end­ur. Reikn­ing­ur­inn vegna þess verður þá að koma frá grein­inni. Það er bara svo ein­falt.“

 

Deila: