Reikningurinn ekki sendur á skattgreiðendur
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hún hafi orðið reið þegar hún fékk upplýsingar um kröfur sjávarútvegsfyrirtækja á hendur íslenska ríkinu upp á 10,2 milljarða. Þær kröfur séu ekki góð leið til að „vera á sama báti“. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra segir að þessi reikningur verði ekki sendur á skattgreiðendur. Þetta kom fram í ræðum þeirra Katrínar og Bjarna þegar Katrín flutti munnlega skýrslu um áhrif COVID-19 faraldursins og um viðbrögð stjórnvalda við þeim áhrifum á Alþingi í gær. Kjarninn.is greinir frá þessu.
„Ég vil segja það að hér að ég hef verið gríðarlega ánægð með þá samstöðu sem maður hefur skynjað í samfélaginu í því að takast á við veiruna. Bæði fyrirtæki og fólk hafa þar sýnt mikla ábyrgð. Flokkar á Alþingi hafa sýnt mikla ábyrgð. Þetta er dýrmætt.
En þá verður maður líka reiður þegar fyrirtæki í sjávarútvegi gera kröfu á ríkið upp á ríflega tíu milljarða vegna makrílúthlutunar.“
Í ræðu sinni um munnlega skýrslu forsætisráðherra um áhrif COVID-19 faraldursins og um viðbrögð stjórnvalda við þeim áhrifum á Alþingi í gær, sagði Bjarni að við núverandi aðstæður þyrftu allir í samfélaginu að leggjast á árarnar. „Því langar mig að segja þetta hér: fiskveiðistjórnunarkerfið okkar er ekki náttúrulögmál. Það er mannanna verk. Aðgangur að auðlindinni, stjórnun veiðanna, hvernig við viljum tryggja sjálfbærni veiðanna, hvaða gjald við ætlum að taka í veiðigjald. Þetta eru allt mál sem við ráðum til lykta hér á Alþingi með lögum og reglum. Möguleg innbyrðis togstreita um aflaheimildir milli útgerða verður ekki leyst á kostnað skattgreiðenda. Það verður ekki þannig.
Nú höfum við tekið til varna í þessu svokallaða makrílmáli. Við munum taka til fullra varna og ég hef reyndar góðar væntingar um að við munum hafa sigur í því máli. En ef svo ólíklega vill til að það mál fari ríkinu í óhag þá er það einfalt mál í mínum huga að reikningurinn vegna þess verður ekki sendur á skattgreiðendur. Reikningurinn vegna þess verður þá að koma frá greininni. Það er bara svo einfalt.“