Fishfacts heldur fyrstu sjávarútvegssýningu heims á netinu

223
Deila:

Gagnabankinn Fishfacts boðar nú til fyrstu sjávarútvegssýningar og ráðstefnu í heimi sem haldin verður á netinu dagana 9. til 10. júní næstkomandi. Það eru Færeyingarnir Óli og Hanus Samró, sem eiga og reka upplýsingaveituna og gagnabankann www.fishfacts.com í sjávarvarútvegi.

„Við vorum tilbúnir til þátttöku í nokkrum sjávarútvegssýningum í vor, þar með talið Evrópsku sjávarútvegssýninguna í Brussel, en öllum var aflýst eða frestað vegna Covid-19 veirunnar,“ segir sölustjóri Fishfacts, Hanus Samró.

Í stað þess að bíða eftir næstu sýningum, ákváðu feðgarnir Óli og Hanus að stofna til fyrstu sjávarútvegssýngar heims á netinu.

Sjá kynningu: https://vimeo.com/407167656

„Við höfum haft samband við mjög marga af notendum Fishfacts og móttökurnar hafa verið hreint frábærar. Allir sem ég hef haft samband við, hafa staðfest þátttöku,“ segir Hanus Samró.

Útgerðir fleiri en 400 fiskiskipa nýta sér nú gagnagrunn Fishfacts. Þessi skip eru gerð út til veiða frá Svalbarða í norðri til Suðurskautsins í suðri og frá Kanada í vestri til Okhotskhafs í austri og eru íslensk skip í þeim hópi.

„Við höfum á tiltölulega skömmum tíma komið á fót vettvangi sem er sérhæfður fyrir sjávarútveginn um veröld víða. Við höfum náð að tengja saman, fiskiðnað, fiskveiðar og þjónustuaðila um allan heim á þessum vettvangi sem er Fishfacts.“

Fishfacts er háþróaður gagnagrunnur sem nær yfir fiskiskip, eignarhald, veiðiréttindi og fjárhag. Fishfacts hefur einnig þróað eigið staðsetningarkerfi sem ber kennsl á skipin og finnur staðsetningu þeirra. „Flestar af stærri útgerðum heimsins,“ segir Hanus Samró.
Félagið leysti landfestar í apríl 2018, stofnað af Óla Samró, viðskiptafræðingi og ráðgjafa á sviði sjávarútvegs og syni hans, Hanusi,

Grunnurinn er byggður á 30 ára reynslu Óla af verkefnum tengdum sjávarútvegi. Árið 2016 gaf Óli út bók um stjórnun fiskveiða um víða veröld. Þar fjallaði hann um hvernig veiðum væri stjórnað innan hvers ríkis, hvort kvótakerfi væri beitt við veiðistjórnunina, hvort erlendar fjárfestingar í útveginum væru leyfðar og hver væru markmið fiskveiðistjórnunarinnar í hverju landi fyrir sig.

Bókin var skrifuð á færeysku en þýdd á íslensku og norsku og heitir hún Fiskveiðar – fjölbreyttar áskoranir.

Eftir útkomu bókarinnar snéri Óli sér að stofnun Fishfacts og í stað þess að fjalla um veiðistjórnun hefur hann tekið saman upplýsingar um veiðiréttindi, hverjir nýta þau og hvar fiskurinn er tekinn.

Frá stofnun Fishfacts fyrir einu og hálfu ári hefur fyrirtækið vaxið hratt og nota yfir 400 skip gagnagrunn þess og fjöldi þjónustufyrirtækja sömuleiðis. Markmiðið er að tengja saman sjávarútveginn og þau fyrirtæki sem þjóna honum.

Deila: