Hátíðum sjómanna aflýst

Heimsfaraldur Covid19 hefur víðtækar afleiðingar í sjávar útvegi sem víðar. Takmarkanir á samkomuhaldi næstu mánuði hafa gert að verkum að nú þegar hefur stærstu hátíðum í tengslum við sjómannadaginn 7. júní verið aflýst, þ.e. Hátíð hafsins í Reykjavík og Sjóaranum síkáta í Grindavík. Raunar er það þannig að aldrei í sögunni hefur hátíðarhöldum sjó mannadagsins verið aflýst í
höfuðborginni en haldið hefur verið upp á sjómannadaginn allt frá árinu 1938.
Sjómannadagsráð réðist fyrir nokkrum árum í að efla sjómannadagshátíðarhöldin og tók upp samstarf við Faxaflóahafnir og Brim og varð þá til Hátíð hafsins sem staðið hefur alla sjómannadagshelgina. Tugþúsundir borgarbúa og gesta borgarinnar hafa lagt leið sína á hafnarsvæðið þessa daga og notið fjölbreyttra dagskrárliða en af því verður ekki í ár. Hins vegar hafa
samstarfsaðilarnir boðað að þráðurinn verði tekinn upp af fullum krafti að ári.
Afmælishátíð Sjóarans síkáta bíður næsta árs
Svipaða sögu er að segja um hátíð Grindvíkinga, Sjóarann síkáta. Hátíðina átti nú að halda í 25. sinn en þau tímamót verða að bíða næsta árs.
„Þó svo ekki fari fram hátíðardagskrá með hefðbundnum hætti munu aðstandendur Sjóarans síkáta leitast við að brjóta upp hversdagsleikann síðar á árinu. Grindvíkingar eru þekktir fyrir að sýna samstöðu þegar á reynir og munu saman sigla í gegnum það ástand sem nú ríkir,“ segir á
heimasíðu Grindavíkurbæjar um þessa ákvörðun.