Skjótt skipast veður í lofti
Útflutningsverðmæti landbúnaðarafurða nam 2,1 milljarði króna í apríl samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan hefur birt. Það er verulegur samdráttur frá apríl í fyrra, eða sem nemur um 18% í krónum talið en rúmum 28% á föstu gengi. Þetta bendir til þess að samdráttur hafi orðið í útflutningi á eldisafurðum á milli ára, sem yrði þá í fyrsta sinn frá því í árslok 2018. Eldisafurðir flokkast undir landbúnaðarafurðir í tölum Hagstofunnar um vöruskipti og á þar langstærstan hluta, eins og blasir við á annarri myndinni hér fyrir neðan. Þannig nam verðmæti eldisafurða um 86% af heildarverðmæti útfluttra landbúnaðarafurða á fyrsta ársfjórðungi samkvæmt frétt á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Samdrátturinn kemur í kjölfarið á verulegri aukningu í útflutningi á eldisafurðum, eins og fjallað var um í grein í síðustu viku. Útflutningsverðmæti eldisafurða er komið í rúma 8,2 milljarða króna á fyrsta fjórðungi ársins, sem er meira en það hefur nokkru sinni verið hér á landi. Vegna COVID-19 áhrifa kemur þessi niðurstaða vitaskuld ekki á óvart. Eldisfyrirtæki fara ekki varhluta af þeim áhrifum fremur en aðrar atvinnugreinar, samdráttur hefur orðið í eftirspurn, afurðir hafa lækkað í verði og eins hefur ástandið haft mikil áhrif á dreifikerfi.