Verð á þorski lækkar enn

145
Deila:

Viðmiðunarverð á nokkrum helstu fisktegundum í beinum viðskiptum var lækkað töluvert á  fundi hagsmunasamtaka sjómanna og útvegsmanna hjá Verðlagsstofu skiptaverðs, sem haldinn var í vikunni. Slægður þorskur lækkar um 7,2%, óslægður þorskur lækkar um 8,8%, slægð ýsa lækkar um 10,8%, óslægð ýsa hækkar um 1,9%, karfi lækkar um 5% en verð á ufsa helst óbreytt.

Þetta er annar mánuðurinn í röð, sem verð á þorski lækkar umtalsvert. Í byrjun apríl lækkaði verð á slægðum þorski um 5,6% og um 9,2% á óslægðum þorski. Þannig hefur viðmiðunarverð Verðlagsstofu skiptaverðs á slægðum þorski lækkað um tæp 13% frá því í aprílbyrjun og á óslægðum um 18%. Lækkunina má rekja til minnkandi eftirspurnar eftir fiskafurðum á erlendum mörkuðum vegna Covid-19 faraldursins. Almennt borðar fólk í markaðslöndunum frekar fisk á veitingastöðum en að elda hann heima, en nú hafa veitingastaðir þar verið lokaðir vikum saman.
Rétt er að benda á að tekjur sjómanna lækka í sömu hlutföllum og fiskverðið.

 

Deila: