Líflegt á „lokadegi“

„Það er ansi líflegt þessa dagana hér í Grindavíkurhöfn. Búið að vera í hálfan mánuð til þrjár vikur alveg bullandi fiskirí. Svona á þetta að vera. Nú er blíðuveður og hefur verið gott sjóveður fyrir smærri bátana í rúma viku,“ sagði Þröstur Magnússon á hafnarvoginni í Grindavík síðdegis í gær. Þá var hinn áður hefðbundni lokadagur vetrarvertíðar að renna sitt skeið.
„Það er ágætisafli hjá okkur,“ sagði Þröstur ennfremur. „Strandveiðibátunum gengur vel að ná í skammtinn sinn. Eru bara þrjá til fjóra tíma að sækja hann, tæp 800 kíló á dag, enda stutt að fara. Það eru að minnsta kosti 15 strandveiðibátar að landa hér.
Það er líka ágætis afli á þessum stærri bátum í krókakerfinu. Þeir eru með frá 5 tonnum upp í 20 tonn. Kristján HF var með 20 tonn Daðey landaði 12,5 tonnum og nú er verið að landa úr Sævíkinni. Komin fjögur tonn upp úr honum. Jónína Brynja landaði 19 tonnum og þeir eru farnir út aftur til að draga afganginn af línunni.“

Jónína Brynja kemur inn með mokafla. 19 tonn og þurfti að fara út aftur til að klára að draga línuna. Gnúpur er í baksýn að landa frystum fiski. Á efri myndinni eru Dúddi Gísla, Geirfugl og Steinunn að landa og Jónína Brynja beið eftir að komast að bryggju.
Þröstur segir að enn sé nóg af fiski, en kannski fari þetta að grisjast þegar hrygningarfiskurinn gengu aftur út. Auk þessa var landað 89 tonnum í línubátnum Kristínu GK og frystitogarinn Gnúpur lá við togarabryggjuna í löndun.
„Það er ekki hægt að kvarta yfir þessu. Þetta er ansi líflegt,“ sagði Þröstur.
Ljósmyndir Hjörtur Gíslason.