Mun minni kolmunnaveiði

169
Deila:

Aðeins veiddust um 93 þúsund tonn af kolmunna frá janúar til aprílloka í ár. Kolmunnaveiðin það sem af er maímánuði gefur ekki tilefni til bjartsýni um að veiðarnar í ár slái við undangengnum þremur árum. Það verður að teljast ólíklegt að kolmunnvertíðin í ár toppi úr þessu fyrri ár en samanburður eftir mánuðum á 2017-2019 sýnir að veiðar eru að jafnaði mestar frá febrúar til maí. Þær dragast svo verulega saman, eða eru engar yfir sumar- og haustmánuðina, en taka svo við sér á ný í desember, samkvæmt frétt frá Fiskistofu.

Kolmunnaveiðin dregist saman frá 2017

Á tímabilinu 2017-2020 hefur kolmunnveiðin gengið best árið 2017. Þá veiddust tæplega 160 þúsund tonn fyrstu fjóra mánuði ársins og heildarkolmunnaveiðin það ár var ríflega 292 þúsund tonn. Næstbesta kolmunnavertíðin var árið 2018 með alls 273 þúsund tonn, þar af veiddust tæplega 123 þúsund tonn fyrstu fjóra mánuði ársins. Í fyrra veiddust tæplega 255 þúsund tonn af kolmunna, þar af tæplega 156 þúsund tonn fyrstu fjóra mánuðina ársins, sem er samt tæpum 63 þúsund tonnum meira en veiddist fyrstu fjóra mánuði þessa árs.

Veiddum 105 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld í fyrra

Alls veiddust 105,6 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld í fyrra og er það besta síldveiðiárið á tímabilinu 2017-2019. Árið 2018 veiddust hins vegar aðeins tæplega 83 þúsund tonn. Veiðarnar árið 2017 gengur heldur betur en 2018 því þá veiddust tæplega 89 þúsund tonn, eða sex þúsund tonnum meira en 2018.

Meginþungi síldveiðanna hefur verið síðsumars og á haustin, og var aukingin veruleg milli októbermánaða í fyrra og hitteðfyrra, eða um 45 þúsund tonn. Á móti varð hins vegar um 10 þúsund tonna samdráttur milli nóvember í fyrra og árið áður.

Samdráttur í makrílveiðum undanfarin ár

Áhugavert  verður að sjá hvernig  makrílvertíðin í ár verður. Í fyrra veiddust um 127,4 þúsund tonn af makríl. Veiðarnar gengu betur árið 2018 en þá veiddust um 140,5 þúsund tonn. Besta makrílárið af þessum þremur var árið 2017 en þá veiddust 166,6 þúsund tonn.

Samanburður á makrílveiðum áranna 2017-2019 eftir mánuðum sýnir að eftir nokkurn samdrátt í veiðum milli áranna 2017 og 2018, tóku þær vel við sér í júlí- og ágústmánuði 2019 en verulegur samdráttur er hins vegar í makrílveiðum í september það ár, miðað við fyrri árin tvö og því samdráttur í veiðunum undanfarin ár.

Hrun í loðnuveiðum í ár og í fyrra

Engin loðnuveiði hefur verið það sem af er þessu ári og útlit fyrir algert hrun í veiðum eins og í fyrra. Árið 2018 veiddust hins vegar ríflega 186 þúsund tonn af loðnu og árið 2017 veiddist heldur meira, eða tæplega 197 þúsund tonn.  Hefðbundinn veiðitími loðnunnar er einkum fyrstu  þrjá mánuði ársins, janúar til mars.

Hjá uppsjávarskipunum tekur ein vertíðin við af annarri yfir árið

Þótt uppsjávarskipin séu ekki mörg í íslenska flotanum teljast til þeirra mörg af öflugustu fiskiskipunum. Yfir árið sækja þessi skip mismunandi tegundir uppsjávarfisks þar sem vertíð í einni tegund tekur við af annarri.  Eins og yfirlitsmyndirnar bera með sér er það hefðbundið að uppsjávarveiðin beinist að loðnu fyrsta ársfjórðunginn, kolmunninn tekur svo við fram í júní en þá byrjar makrílveiðin sem getur staðið fram í október þegar veiðar á norsk-íslenskri síld hefjast og standa framundir lok árs oft ásamt kolmunnaveiði í desember.

Deila: