Stefnan lá beint á sjóinn

,,Það lá nokkuð beint við að ég gerði sjómennskuna að ævistarfi. Faðir minn var sjómaður og einnig faðir hans. Móðurafi minn var sjómaður og vélstjóri og af fimm bræðrum mínum erum við fjórir þeirra sjómenn,” segir Guðmundur Einarsson, fyrsti stýrimaður á frystitogaranum Vigra RE í samtali á heimasíðu Brims.
Guðmundur er borinn og barnfæddur Skagamaður en hann réði sig fyrst í fast starf sem háseti á netabátnum Sólfara AK árið 1979, þá 16 ára gamall. Það voru þó ekki fyrstu kynni Guðmundar af sjónum því aðeins tíu ára gamall fór hann í fyrsta róðurinn með föður sínum, Einari Árnasyni.
Í Stýrimannaskólann 1988
Svo vikið sé að atvinnuferlinum þá segist Guðmundur hafa verið þrjú ár á Sólfara en þá hafi hann söðlað um og ráðið sig á ísfisktogarann Harald Böðvarsson AK.
,,Ég var fjögur ár á Haraldi en svo var ég í eitt ár á Höfðavík AK sem Haförn hf. gerði þá út. Sumarið 1985, eftir að hafa verið á Haraldi, var ég með pabba á færum og grásleppuveiðum á Sigursæli AK. Við fiskuðum vel en Sigursæll var í eigu pabba. Þetta var gamall súðbyrtur, síldarbátur sem var smíðaður á Akranesi 1954-55 af Inga Guðmonsyni Stærðin var um sjö tonn. Þessi bátur er nú á Byggðasafninu Görðum á Akranesi og bíður þess, ásamt fleirum, að vera gerður upp og sýndur gestum og gangandi.
Síðan lá leiðin í Stýrimannaskólann þar sem ég var frá hausti 1988 til vors 1990. Ég held að fremur fáir bekkjarfélaga minna hafi verið lengi á sjó eftir skólann og bara tveir koma upp í hugann. Það eru Bergþór, sem nú er skipstjóri á Tómasi Þorvaldssyni GK, og Valgeir sem er stýrimaður á Viðey RE. Ég er í góðu sambandi við þá og við heyrumst reglulega ,” segir Guðmundur.
Eftir Stýrimannaskólann var Guðmundur bátsmaður á Haraldi Böðvarssyni um átta til níu mánaða skeið en 1991 réð hann sig á togarann Skipaskaga AK sem Heimaskagi gerði út. Það félag var þá að sameinast Haraldi Böðvarssyni hf.
,,Ég var annar stýrimaður en leysti af sem fyrsti stýrimaður á Skipaskaga. Ég var þó ekki lengi á því skipi og eftir að sameiningin var gengin um garð fór ég yfir á Harald Böðvarsson sem annar bátsmaður auk þess sem ég leysti af sem annar stýrimaður þegar þess þurfti með. Hið sama gilti eftir að ég flutti mig yfir á togarann Sturlaug H. Böðvarsson AK. Höfrungur III AK var þá að bætast við flotann. Því fylgdu einhverjar hrókeringar og m.a. fór Gunnar Einarsson skipstjóri yfir á Sturlaug. Frá 1993 til 2007 var ég annar stýrimaður og leysti af sem fyrsti á Sturlaugi,” segir Guðmundur.
Fór sem háseti á Vigra RE
Segja má að ákveðinn vendipunktur hafi orðið á sjómennskuferli Guðmundar árið 2007.
,,Mér fannst kominn tími til að breyta um umhverfi og niðurstaðan varð sú að ég réði mig sem háseti á frystitogarann Vigra RE sem Ögurvík hf. gerði þá út. Ég var ráðinn annar stýrimaður á Vigra árið 2009 og frá árinu 2013 hef ég verið fyrsti stýrimaður,” segir Guðmundur en hann ber Ögurvíkurmönnum vel söguna.
,,Þetta voru góðir karlar sem gott var að vinna fyrir. Kvótastaðan var þröng fyrir tvö skip en við fengum alltaf það sem við báðum um og þurfti fyrir skipið.”
Brim hf. keypti Ögurvík árið 2016 og Guðmundur segir gott að vinna fyrir þetta öfluga útgerðarfélag.
,,Við erum að upplifa mikla breytingatíma í íslenskum sjávarútvegi. Afköst skipanna hafa aukist mikið. Fyrir nokkrum árum þótti það sæta tíðindum ef togari náði að veiða 7.000 tonn á ári. Nú vekur það athygli ef tonnin eru 10.000,” segir Guðmundur Einarsson.