Svo kemur Covid-19 og þá breytist allt

„Ég fór út á sjó í síðustu veiðiferð í byrjun apríl. Ég held að það hafi aldrei verið eins flókið að fara út á sjó. Þá var gott að hafa samstillta áhöfn og góða útgerð með Björn Halldórsson, öryggisstjóra, í fararbroddi. Strákarnir voru í raun í sóttkví í tvær til þrjá vikur fyrir túrinn til reyna að forðast smit. Það var skortur á sýnatökupinnum á þessum tíma en svo komst áhöfnin í skimun skömmu fyrir brottför, og þá reyndist einn jákvæður og varð eftir heima. Þetta var sunnudegi og fórum út á miðvikudegi. Þetta var ekki bara áfall fyrir hann og fjölskyldu hans, heldur bæði áhöfn og útgerð með það í huga að hefði hann farið smitaður út á sjó, hefði allt hreinlega farið mjög illa. Þetta var allt mjög skrítið vitandi það að við þyrftum að bíða í um hálfan mánuð úti á sjó eftir því hvort allir væru ekki örugglega einkennalausir og það varð sem betur raunin.“
Þetta segir Sigurður Jónsson, skipstjóri á Tómasi Þorvaldssyni, frystitogara Þorbjarnar hf. í Grindavík, hina bannsettu Corona-veiru Covid-19 og áhrif hennar fiskveiðarnar. En það eru mun meiri áhrif sem faraldurinn hefur á veiðarnar. Markaðirnir ytra hrundu.
Ansi sérstakt verkefni
„Svo er það skrítin tilfinning að fara út á sjó vitandi svona nokkurn veginn hvað veiða skuli, en eftir fimm daga gjörbreytist allt saman það hægðist á öllum sölumálum úti. Það eina sem hefur selst auðveldar og betur eru afurðir fyrir markaði í Asíu. Fyrir vikið var bara brunað vestur á Torg í grálúðu. Það sama hefur átt við langflest frystiskipin. Það er verið að reyna að halda sjó. Það þýðir ekkert að vera fiska það sem fer bara beint í geymslu og því veist ekki einu sinni hvaða verð mun fást fyrir þann fisk. Við tókum flakaverðið niður um 20% til öryggis, en það er ekkert víst hvert verðið verður svo. Öll önnur verð voru færð niður um 10% í uppgjörinu.
Gengið hefur reyndar verið hagstætt fyrir okkur, en þetta eru tímar sem þú verður gera hlutina öðru vísi. Maður verður bara að haga sér eftir aðstæðum og þær hafa bæði verið erfiðar og skrítnar. Við fiskum alltaf það sem markaðurinn biður um, ef markaðurinn stoppar eins og núna, verður maður að stoppa líka og fara að gera eitthvað annað. Nú liggja frystiskipin í grálúðu og jafnvel ísfiskskipin líka. En það liggur fyrir að þetta ástand muni lagast og smám saman mun neyslan aukast og hlutirnir færast í eðlilegra horf. Þetta er bara verkefni, ansi sérstakt, en svo koma bjartari tímar. Það koma alltaf upp einhverjar aðstæður sem kalla á viðbrögð. Ég vil ekki kalla þær vandamál, heldur verkefni sem þarf að leysa.“
Reglur þarf að sveigja eftir aðstæðum
Sigurður bendir reyndar á að við sérstakar aðstæður eins og til dæmis núna, gangi það ekki að allar reglur um veiðar og sókn sé óbreyttar. Reglur séu góðar og gildar þegar þær eigi við, en þær verði að sveigja og breyta, þegar aðstæður breytist. Núna verði til dæmis að breyta reglunum um flutning kvóta yfir á næsta ár. Það sé engin skynsemi í því að það þurfi að veiða fisk sem enginn kaupandi er að. Það sé líka lítil skynsemi í því að þurfa að hirða þorskhausa, sem ekkert verð fáist fyrir. Það sé lítil skynsemi fólgin í því að láta reglur ráða því hvað nýtt sé og hvað ekki.
„Útgerðin og skipstjórarnir eru alltaf leita eftir því sem skili einhverjum peningum, verðmætum. Nú felast engin verðmæti í þorskhausunum. Ef olíuverð fer niður eins og nú, hrynur afurðaverðið á þorskhausum í Nígeríu og þannig er staðan nú. Þá kemur tímabil sem ekkert fæst fyrir þetta, en samt erum við með reglugerð um það að hirða verður ákveðið magn af hausum. Útgerðir hafa líka verið að hirða karfahausa. Það opnaðist góður markaður fyrir þá um tíma. Núna veit ég að erum í geymslum nokkur þúsund kassa af karfahausum, því markaðurinn er fallinn. Karfahausarnir eru notaðir í krabbagildrur við strendur Alaska, en þar hafa einhverjar breytingar orðið á. Því sitja menn uppi með verðlausar afurðir með tilheyrandi kostnaði.

Landað úr frystitogurunum Tómasi Þorvaldssyno og Gnúp.
Glapræði og hverfa frá núverandi kerfi
Ég gagnrýni þetta, reglur verða að vera sveigjanlegar. Nú er komin af stað verksmiðja sem framleiðir kollagen úr fiskroði og við höfum verið að hirða roð fyrir hana. Það er engin reglugerð sem segir okkur að gera það, við hirðum roðið því í vinnslu þess felast tækifæri til verðmætasköpunar. Þannig tökum við þátt í framþróuninni. Umhverfið í sjávarútveginum er síbreytilegt og við verðum að laga okkur að þeim breytingum. Einn af styrkleikum sjávarútvegsins er hæfileiki til þess að takast á við breytingar. Þegar ég byrjaði skipstjórn var kvótakerfið að koma. Ég vissi hvernig þetta var fyrir kerfið og hef síðan séð hver þróunin og breytingin hefur verið. Þetta er eins og svart og hvítt. Það er alveg sama hvaða kerfi er notað til að stjórna veiðunum, það má alltaf bæta það. En að ætla sér að henda núverandi kerfi og fara í einhverjar ólympískar veiðar og bjóða veiðiheimildir á uppboðum er bara glapræði. Þá er verið að fara marga áratugi aftur í tímann. En allt má laga og það hefði mátt taka á ákveðnum málum, því sumt hefur ekki þróast á réttan hátt. En ef menn ætla setja strangar ósveigjanlegar reglur gengur það ekki upp. Ef menn eru að missa veiðileyfi fyrir að henda verðlausri tindabikkju, þá eru menn komnir í eitthvert lögregluríki sem enginn vill vera í.“
Hörku skip í alla staði
Nú er liðið um ár síðan Þorbjörn keypti togarann Sisimiut frá Grænlandi og gaf honum nafnið Tómas Þorvaldsson. Sigurður hefur síðan verið með skipið ásamt Bergþóri Gunnlaugssyni. „Þetta er hörkuskip í alla staði. Manni fannst eins og svart og hvítt að vera á Hrafni Sveinbjarnarsyni eftir að hann var lengdur, en að fara svo af honum yfir á Tómas Þorvaldsson er ennþá stærra skref. Hann fer alveg geysilega vel með okkur. Eins tíðarfarið er búið að vera í vetur reyndi verulega á hann, en þetta er öruggt og sterkt skip, gott sjóskip. Það er meira pláss í skipinu og það fer betur um allt og alla,“ segir Sigurður.
„Við höfðum ákveðnar efasemdir þegar við fórum út til að skoða skipið í Noregi þegar verið var að undirbúa kaupin, hvernig sjálfvirkir frystar í vinnslurýminu gætu gengið á Íslandsmiðum í miklum sjógangi. En það hefur bara ekkert vesen verið með það. Bara núna í síðasta túr vorum við að veiðum í 25 til 30 metrarum í leiðindaverðri. Þá rúllaði sjálfvirknin niðri hnökralaust meðan strákarnir voru að vinna. Skipið hefur reynst afskaplega vel. Það tekur reyndar alltaf sinn tíma að gera þetta að sínu. Það er gjörólík vinnan hjá okkur um borð frá því sem fyrri eigendur voru að gera. Þetta hefur þó gengið fljótar en við bjuggumst við. Það þarf að aðlaga umbúðirnar að því sem við erum að gera svo og vöruna, hugsa um hvaða umbúðir henta kaupandanum og svo framvegis. Endapunktinn í þessu áttum við í vetur þegar við vorum að þróa öskjur fyrir karfann hjá okkur. Þá leystum við síðasta vandamálið. Þetta hefur því gengið framar vonum, en það felst í því mikil vinna að taka við nýju skipi með búnaði sem áhöfnin er ekki vön. Við lítum ekki á þetta sem vandamál, heldur verkefni.“
Getur dregið tvö troll í einu
Fyrir utan stærðina á Tómasi er sá munur frá Hrafni Sveinbjarnarsyni, að hann getur dregið tvö troll í einu. Sigurður segir að við ákveðnar aðstæður eins og að veiða grálúðu fyrir austan land, skipti þetta sköpum. Það þurfi að þekkja styrkleika og veikleika skips og veiðarfæra, hvenær þú græðir á því að vera með tvö troll undir og hvenær ekki. Það sé ekki alltaf betra að vera með tvö troll, en á móti komi geti það skipt sköpum, hvort það borgi sig að vera á slóðinni, hvort maður sé undir eða yfir hungurmörkunum. Það skipti miklu máli að hafa þennan möguleika og sjáist það vel á nýjum öflugum togurum eins og Breka, Páli Pálssyni og Guðmundi í Nesi. Þeir séu að fiska alveg svakalega vel.
En allt verði þetta að „harmonera“ saman, en þetta ráði úrslitum við ýmsar veiðar. Taka megi til dæmis þorskveiðar. Menn hafi fundið það að toppnum hafi verið náð fyrir nokkrum árum. Nú þurfi menn að hafa meira fyrir því að ná fiskinum og þá geti verið gott að vera með tvö troll undir. Nú sé líka algengt að beðið sé um ákveðna stærð af fiski, það sé ekki bara af fá þetta mikið magn í húsið, klukkan þetta þennan dag, heldur þurfi þetta helst að vera þessi stærð. Og þá geti menn verið á þeim stað, þar sem réttu fiskstærðina sé að finna. „Það er alltaf gaman að læra eitthvað nýtt og þetta er mjög gaman, en í raun einfaldara en maður hélt.“
Linnulaus ótíð
Mikil ótíð hefur einkennt þennan vetur. „Ég held að það hafi verið í nóvember sem þessi ótíð byrjaði og stóð linnulítið fram á vor. Ég spurði einn sem er eldri en ég og man lengra aftur í tímann. Hann sagði að þetta hefði verið alveg hræðilegt tíðarfar og hann myndi varla eftir öðru eins.
Samhliða því að tíðarfarið hefur verið svona slæmt, hafa skipin ekki getað stjórnað veiðinni eins og best verður á kosið, ekki getað verið meira í karfa, eða ufsa og leitað að þeim tegundum sem erfiðari eru. Þetta hefur verið andstyggilegt tíðarfar sem nánast hefur ráðið því hvar menn hafa getað verið að veiðum. Það er ansi erfitt að skipuleggja veiðar við slíkar aðstæður,“ segir Sigurður Jónsson.
Viðtalið við Sigurð birtist áður í blaðinu Sóknarfæri í sjávarútvegi sem Ritform gefur út. Blaðið má nálgast á slóðinni ritform.is en því er jafnframt dreift til fyrirtækja um allt land.