Aukið sjálfvirkt eftirlit og tölfræðivinnsla skilar aðhaldi

Ögmundur Haukur Knútsson tók þann 1. maí síðastliðinn við stöðu fiskistofustjóra. Ögmundur er viðskiptafræðingur að mennt og doktor í þeim fræðum. Lengstum hefur Ögmundur unnið við Háskólann á Akureyri og sinnt bæði rannsóknarverkefnum og kennslu en síðustu misseri hefur hann unnið að sjálfstæðum sjávarútvegstengdum verkefnum, fyrst og fremst erlendis. En það á við um hann eins og svo marga sem hafa slitið barnsskónum við sjávarsíðuna að fyrsta starfið á lífsleiðinni var við fiskvinnslu og þangað stefndi hugurinn fljótlega.
Verkstjóri í frystihúsinu á Grenivík
„Ég byrjaði að vinna 11 ára í frystihúsinu á Grenivík og fór ekki hefðbundna leið í framhaldsskóla heldur tók Fiskvinnsluskólann og starfaði síðan í frystihúsi Kaldbaks á Grenivík um nokkurra ára skeið og var m.a. verkstjóri þar. Ég innritaðist í fyrsta árganginn í iðnrekstrarfræði við Háskólann á Akureyri árið 1987. Í framhaldi af BS prófi í viðskiptafræði vann ég hjá Háskólanum á Akureyri bæði með námi og eftir og kom þar að ég held að fyrsta verkefni RHA um samanburð á rækjuvinnslum á Íslandi. Það var mikið verkefni og áhugavert,“ segir Ögmundur.
Stóru sölusamtökin hamlandi undir það síðasta
Árið 1995 fór Ögmundur í doktorsnám og ákvað að rannsaka í sínu doktorsverkefni starf stóru sölusamtakanna, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og SÍF. „Þau voru þarna komin í umbreytingarferli, hlutafélagavæðing byrjuð og menn að reyna að brjótast út úr einokunarsölunni á saltfiski. Í stuttu máli átti ég fyrirfram von að rannsókn mín kæmi til með að sýna fram á mikilvægi þess að vera með sölustarfið í stórum heildarsamtökum áfram en að verkefninu loknu var niðurstaðan önnur. Stóru sölusamtökin gerðu vissulega mikið gagn á sínum tíma. Þau efldu gæðavitund í greininni, byggðu upp sölu- og markaðsstarf og komu upp skilvirku kerfi sem við búum að enn þann dag í dag.
En þegar ég fór að rannsaka þetta betur, taka viðtöl við aðila í greininni og skoða söguna kom æ betur í ljós að miðstýringin hafði hamlað framþróun síðustu árin. Það var komið til sögunnar fólk í greininni sem t.d. hafði lært erlendis, hafði markaðsþekkingu, kunni tungumál og hafði færni til að hafa bein samskipti við markaðinn. Ég þekkti það vel úr mínum störfum í fiskvinnslunni á sínum tíma að öll samskipti urðu að vera beint við höfuðstöðvar sölusamtakanna og óþekkt að við sem vorum að vinna í greininni hefðum bein samskipti við kaupendur. Fyrirtæki í greininni voru líka að verða mun öflugri og urðu það sérstaklega í kjölfar heimilda til framsals aflaheimilda árið 1991. Öll tölfræði um greinina sýnir líka að hagnaður fór að myndast í sjávarútvegi þegar nálgaðist aldamótin þegar hin mikla hagræðing í kjölfar framsalsins tók að skila sér af fullum þunga,“ segir Ögmundur.
Margföldun á afköstum greinarinnar
Hafandi starfað við rannsóknir og kennslu tengt sjávarútvegi til margra ára þekkir Ögmundur vel hvernig greinin hefur þróast á undanförnum áratugum og segir vissulega rétt að tilkoma kvótakerfisins og framsalsins hafi miklu breytt, t.d. fyrir einstök byggðarlög. Hins vegar verði ekki framhjá því litið að hagræðingin hafi skilað því að einstakar vinnslur geti nú afkastað margfalt á við það sem frystihúsin gerðu þegar hann var sjálfur verkstjóri á gólfinu. Það sama eigi við um afköst fiskiskipanna.
„Bara sem dæmi voru afköstin í frystingu á Ameríkumarkað 12 kíló á manntíma þá en eru komin yfir 100 kíló á manntíma í dag. Sem þýðir að fyrir hverja 10 starfsmenn sem þú þurftir í þessa vinnslu á þeim tíma þarf einn starfsmann í dag. Þetta sýnir að tækniframfarir hafa haft alveg jafn mikil áhrif á þróunina eins og kvótakerfið sjálft. Við munum sjá þessa þróun halda áfram í stað þess að ganga til baka. Og sem betur fer,“ segir Ögmundur og bendir á að það sé svo önnur hlið og pólitísk að takast á um gjaldtöku af greininni og þann hluta kerfisins. „Í raun má segja að það sé lúxusvandi að tekist sé á um hvaða auka skatta við eigum að taka af sjávarútvegi í stað þess að fást við það hversu mikið eigi að greiða með greininni, líkt og margar þjóðir þurfa að gera.“
Snýst allt um gagnsæi og traust
Aðal verkefni Fiskistofu eru veiðieftirlit, leyfisveitingar, vinnsla upplýsinga í sjávarútvegi og miðlun þeirra. Ögmundur segist leggja áherslu á að áfram verði haldið á sömu braut með allri bestu tækni í eftirliti, tölfræðivinnslu og gagnamiðlun.
„Gagnsæi og traust eru lykilatriði fyrir greinina og okkar starf skiptir miklu í að efla það. Því meira gagnsæi, því heilbrigðara verður kerfið að mínu mati. Eftir því sem aðgangur að upplýsingum er auðveldari þeim mun líklegra er að þeir sem brjóta af sér komi fram í dagsljósið. Það er mikið aðhald fólgið í því að allir geti fylgst með öllum í greininni. Við höfum alla tækni til að hafa meira eftirlit með veiðum með sjálfvirkum hætti, t.d. með myndavélum um borð í skipum og fleiru en allt þarf að sjálfsögðu að uppfylla persónuverndarlög og annað slíkt. Þetta þarf að þróa með greininni þannig að allir njóti ávinningsins því almennt vilja allir að hlutirnir séu í góðu lagi og að þeir sem stunda fiskveiðar geti sýnt fram á að þeir umgangist auðlindina vel.
Stóra atriðið í þessu er brottkast á fiski, sem vísbendingar eru því miður um að hafi aukist lítillega aftur, og mér finnst mikilvægt að allt verði gert til að menn geti komið með allan fisk í land og hvatinn til brottkasts verði ekki til staðar,“ segir Ögmundur og bendir á að mikil framþróun sé í tegundaskráningu og t.d. sjálfvirkri vigtun á aðgerðaborðum stærri fiskiskipa sem geti verið liður í framþróuninni.
„Ég sé fyrir mér að mun lengra verði gengið í sjálfvirku eftirliti, tölfræðilegri greiningu, gervigreind og skráningum til að auðvelda okkur að sjá hvar eitthvað þarf að skoða sérstaklega. Við þurfum að geta einbeitt okkur að þeim stöðum þar sem hlutirnir eru ekki í lagi og þannig fækkað brotum. Það hjálpar sjávarútvegsgreininni og eykur traust á henni. Í öllum atvinnugreinum eru svartir sauðir og þá þarf að vakta.“
Mun betur gengið um auðlindina en áður fyrr
Ögmundur segist hafa hug á að efla samstarf við greinina um áhersluefnin í starfsemi Fiskistofu enda felist miklir hagsmunir í því fyrir greinina að umgegni um auðlindina sé sem best og að hún fari að lögum og reglum.
„Vitanlega takast menn á og hafa mismunandi skoðanir á framkvæmdinni. En við erum alltaf að þróast til betri vegar og ef við horfum 40 ár aftur í tímann þá er það staðreynd að umgengni um auðlindina hefur gjörbreyst til batnaðar. Hráefnismeðferð hefur stórbatnað og við sjáum hvernig menn vinna saman innan greinarinnar og sem dæmi má nefna áhersluna í röðum smábátasjómanna á að afli sé vel og rétt ísaður á strandveiðum. Almennt má fullyrða að kvótakerfið sé í sjálfu sér umhverfismál og hafi skilað miklu á því sviði. Það er staðreynd. Fiskimiðin eru takmörkuð auðlind sem við verðum alltaf að umgangast af virðingu.“
Viðtal þetta birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri í sjávarútvegi, sem Ritform gefur út. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land, en einnig má lesa blaðið á slóðinni https://ritform.is/