Hætta rækjuveiðum vegna verðlækkunar

Áhöfnin á rækjuskipinu Berglíni GK 300 sigldi í gær frá Siglufirði til Njarðvíkur með tóman bát. Skipverjar samþykktu einróma að fara ekki aftur til veiða nema 35% lækkun á umsömdum launum yrði leiðrétt, eða þeir fengju í það minnsta vilyrði fyrir því að launin yrðu leiðrétt. Frá þessu er greint á ruv.is
Berglín er annað tveggja rækjuveiðiskipa Nesfisks. Ingi Þór, fyrsti stýrimaður Berglínar, segir áhöfn skipsins hafa heyrt af því á föstudag að útgerðin ætlaði ekki að gera upp samkvæmt samningi við skipverja. Þegar launin voru greidd á mánudag kom í ljós að þau voru 35% lægri en samningar gera ráð fyrir.
Áhöfninni bent á kæruferli
Ingi Þór segir áhöfnina hafa verið sammála um að halda ekki til veiða nema að fengnu vilyrði um að laun þeirra fyrir síðasta mánuð yrðu leiðrétt. Þeir lýstu sig svo tilbúna til þess að mæta stjórnendum hennar til viðræðna um breytingu á launum, í ljósi aðstæðna á mörkuðum vegna kórónuveirufaraldursins. Ingi Þór segir stjórnendur hafa neitað að gefa vilyrði fyrir leiðréttingu launa, og bentu áhöfninni á að fara í kæruferli sem getur tekið nokkra mánuði. Að sögn Inga Þórs er áhöfn hins rækjuskipsins á leið til viðræðna við stjórnendur Nesfisks í byrjun næstu viku. Áhöfnin á Berglíni hafi hins vegar enn ekki fengið fundarboð á sama fund.
Þegar búið var að flytja skipið af löndunarbryggju að annarri bryggju á Siglufirði fékk áhöfnin símtal frá útgerðinni um að sigla skipinu til Njarðvíkur, í burt frá rækjuslóðum. Ingi Þór sat við stýrið úti fyrir Norðurlandi þegar fréttastofa náði tali af honum í nótt.
Erfiður markaður
Bergur Eggertsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Nesfisks í Sandgerði, sagði í samtali við fréttastofu í gær að rækjumarkaðurinn væri erfiður í ljósi aðstæðna í heiminum. „Bretland er bara lokað,“ sagði Bergur í samtali við ruv.is.
Ljósmynd Bergþór Gunnlaugsson.