Þorskurinn gæti sigrað Covid-19

Meltingarensím úr íslenskum þorski gætu gegnt lykilhlutverki sem vörn gegn COVID-19 sjúkdómnum, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum úr rannsóknum þar að lútandi. Sænska líftæknifyrirtækið Enzymatica tilkynnti í gærmorgun að munnúðinn ColdZyme, sem er þegar í sölu víða um Evrópu, þar á meðal Íslandi, undir vörumerkinu PreCold, hefði óvirkjað yfir 98% af veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, á 20 mínútum í tilraun sem framkvæmd var af óháðum þriðja aðila. Eitt helsta innihaldsefni ColdZyme er þorskatrypsín. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu og segir þar ennfremur:
„Það er ensím unnið úr meltingarvegi þorsks sem veiddur er við Ísland. Trypsínið er framleitt af íslenska líftæknifyrirtækinu Zymetech, sem stundar rannsóknir og framleiðslu á ensímunum að Fiskislóð í Örfirisey. ColdZyme byggir á íslensku hugviti en Enzymatica og Zymetech sameinuðust árið 2016.„Atlantshafsþorskur lifir í mjög köldu umhverfi og étur allt sem hann kemst yfir. Því þarf hann að mynda meltingarensím með sterka niðurbrotseiginleika á próteinum, sem meðal annars finnast á yfirborði SARS-CoV-2 veirunnar sem veldur COVID-19,“ segir Ásgeir Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Zymetech.
„Þarna er um að ræða bráðabirgðaniðurstöður af rannsóknarstofu sem lofa mjög góðu en ekki er hægt að yfirfæra niðurstöðurnar beint yfir í klínísk áhrif. Til þess þarf klínískar prófanir. Sambærilegar tilraunir hafa verið gerðar með ColdZyme á algengustu veiruflokkum sem valda kvefi, þar á meðal kórónaveiru. Í þessum tilfellum hefur verið sýnt fram á virkni vörunnar með klínískum rannsóknum. Sú virkni lýsir sér meðal annars í styttri veikindatíma. Munnúðinn myndar verndandi filmu í hálsi og munnholi sem dregur úr sýkingarhættu af völdum veira,“ bætir Ásgeir við.
Fjölmargar kvefpestir eru af stofni kórónaveira í öðrum undirflokki en sú sem veldur COVID-19. Sýnt hefur verið fram á að kórónaveiran sem nú gengur yfir heiminn tekur sér jafnan fyrst bólfestu í munnholi fólks. Þar margfaldast veiran með þeim afleiðingum að sýktir einstaklingar geta veikst hratt. Munnúðinn gæti því verkað sem fyrirbyggjandi vörn sökum niðurbrotseiginleika trypsíns á yfirborði veirunnar.Zymetech og Enzymatica höfðu átt í samstarfi um nokkurra ára skeið áður en fyrirtækin sameinuðust árið 2016.
Evrópska einkaleyfastofan hefur nýlega staðfest einkaleyfi fyrirtækjanna á notkun ensíma úr Atlantshafsþorski í lækningatæki, snyrtivörur og í lyf.„ Talsverð aukning umsvifa er fram undan hjá Zymetech. Sala á munnúðanum hefur aukist og markaðssvæði er að stækka,“ segir Ásgeir. „Við munum bæta við okkur starfsfólki og búnaði til að mæta aukinni eftirspurn,“ segir hann. Hann nefnir einnig að fyrirtækið þurfi að eiga í góðu samstarfi við íslenskan sjávarútveg, svo tryggja megi ferskleika og gæði slógs sem notað er við framleiðsluna.“