Mikið af makríl norðan Færeyja

199
Deila:

Mikið af makríl fannst norður af Færeyjum í nýafstöðnum leiðangri færeyska skipsins Þrándar í Götu í samvinnu við Hafrannsóknastofnun Færeyja. Þessi útbreiðsla í nokkru samræmi við útbreiðslu síðustu ára, en meira var þó um makríl sunnan eyjanna en áður. Makríllinn var að mestu 9 ára og eldri og stærð hans eftir því.

Markmiðið með leiðangrinum er að finna út stofnvístölu makríls í Norðurhöfum til að byggja stofnstærðarmat á síðar í sumar. Útbreiðsla síldar og kolmunna var einnig könnuð, sem og áta og sjávarhiti.

Norsk-íslenska síldin hélt sig við Íslandshrygginn norður af Færeyjum. Talsvert af fjögurra ára gamalli síld, það er árgangurinn frá 2016, fannst á leiðangurssvæðinu. Þetta er stærsti árgangur norsk-íslenskrar síldar í meira en 10 ár og kemur hann nú sterkur inn í veiðistofninn.

Kolmunnaseiði frá því í vor var að finna syðst á leiðangurssvæðinu eins og fyrri ár. Þá var fullvaxinn kolmunna að finna á norðurhluta þess.

Leiðangur Þrándar í Götu er hluti af fjölþjóðlegum leiðangri fimm annarra skipa frá Íslandi, Danmörku, Noregi og Grænlandi. Farið verður yfir niðurstöður leiðangranna á fundum um miðjan ágúst og þær síðan kynntar. Íslenska skipið og það Grænlenska eru enn að og sama er að segja um tvö skip frá Noregi.

 

 

Deila: