Hófu veiðar í „Nætursölunni“
Ísfisktogarinn Viðey RE kom til hafnar á Sauðárkróki í gærmorgun með tæplega 140 tonna afla. Uppistaða hans var ágætur þorskur sem veiddist á Kolbeinseyjarsvæðinu. Þetta er fyrsta löndun Viðeyjar á Króknum í sumar en öllum afla verður ekið suður til Reykjavíkur til vinnslu.
,,Við hófum veiðar í ,,Nætursölunni” í Víkurálnum og tókum karfaskammtinn á mettíma. Síðan var siglt norður fyrir Vestfirði og austur á Kolbeinseyjarsvæðið með tveimur stuttum stoppum. Þar, sem við vorum að veiðum, voru um 95 sjómílur í Siglunes þannig að við vorum býsna djúpt frá landi. Þorskurinn þar er ágætur eða um þrjú til fimm kíló að jafnaði. Alls vorum við með um 100 tonn af þorski,” segir Kristján E. Gíslason (Kiddó) sem var skipstjóri í veiðiferðinni í samtali á heimasíðu Brims.
Viðey landaði nokkrum sinnum afla á Sauðárkróki í fyrrasumar en Kiddó segir að munurinn nú sé sá helstur að nú hafi verið hægt að fá ætan þorsk lengur á Vestfjarðamiðum, á svæðum eins og Halanum og Þverál. Nú sé smáfiskurinn allsráðandi og því verði að sækja á miðin úti fyrir Norðurlandi til að fá góðan þorsk.
,,Það er stefnt að því að fara aftur til veiða í kvöld og landa hér aftur á fimmtudaginn. Síðan liggur leiðin vestur og suður áður en landað verður í Reykjavík. Svo stendur til að bæta þriðja togspilinu við þannig að við getum togað með tveimur trollum samtímis líkt og Akurey AK. Þessi breyting hefur reynst Akurey vel en nú er röðin komin að okkur,” segir Kristján E. Gíslason í gær.