Lélegasta humarvertíð sögunnar

256
Deila:

Lélegasta humarvertíð sögunnar er nú langt komin. Aðeins um mánuður eftir af fiskveiðiárinu og aflinn er aðeins 52,2 tonn miðað við slitinn humar. Kvótinn hefur aldrei verð lægri og veiðarnar gengið illa. Aflahæsti báturinn er Skinney með 12,8 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Leyfilegur heildarafli er tæp 70 tonn og því óveidd 16,7 tonn

Sé litið þrjú til baka á þrjú síðustu fiskveiðiár á undan þessu, sést glögglega hver þróunin hefur verið, nánast lóðbeint niður. Kvótinn hefur verið nægur en aldrei náðst og aflinn dregist stöðugt saman. Á síðasta fiskveiðiári var leyfilegur afli 217, aflinn varð 92 tonn og 125 tonn óveidd. Aflahæsta skipið þá var Þinganes ÁR með 25 tonn.

Fiskveiðiárið þar áður var leyfilegur heildarafli 467 tonn. Aflinn varð 250 tonn og 217 tonn óveidd. Aflahæsta skipið þá var Jón á Hofi ÁR með 45 tonn.

Fiskveiðiárið 2016/2017 var leyfilegur heildarafli 488 tonn og af því náðust 363 tonn. Óveidd voru þá 126 tonn. Aflahæsti báturinn þá var Þórir SF með 61 tonn en fjórir aðrir voru með á milli 50 og 60 tonn. Það lætur því nærri að afli Þóris þetta fiskveiðiár verði álíka mikill og afli allra skipanna í ár.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Deila: