Kleifaberg með mestan karfaafla
Karfaafli nú undir lok fiskveiðiársins er orðinn um 38.400 tonn samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Miðað við það eru 2.000 tonn enn óveidd af 40.400 tonna kvóta. Ljóst er því að nægilegt svigrúm er til að færa ónýttar aflaheimildir yfir á næsta ár. Leyfilegur kvóti á næsta fiskveiðiári er 38.340 tonn.
Mesti karfaafli síðustu Íslendinga áratugi var 1982 þegar hann varð langleiðina í 100.000 tonn. Á þeim tíma var veiðum stjórnað með svokölluðu skrapdagakerfi, sem beindi veiðum fiskiskipanna frá þorski yfir í aðrar tegundir eins og karfa. Aflinn lækkaði síðan hratt og var árið 1994 um 43.500 tonn. Síðan hefur hann verið um 40.000 tonn að meðaltali.
Á þessu fiskveiðiári hafa fimm skip landað 2.000 tonnum eða meira af karfa. Efst er Kleifaberg RE með 2.900 tonn, í öðru sæti er Vigri RE með 2.600 tonn og í þriðja sætinu er Höfrungur III AK með 2.500 tonn. Þá kemur Arnar HU með 2.350 tonn og loks Gnúpur GK með 2.000 tonn.